Skin og skúrir í eyðifirði

Hestamannafélagið Léttfeti á Sauðárkróki hefur í áratugi skipulagt hestaferðir fyrir félagsmenn sína um héraðið eða í næstu sýslur og hafa tveir til þrír dagar farið í reið og jafnvel fleiri. Hafa ferðirnar notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina þótt eitthvað hafi dregið úr ásókn síðustu ár.

Í vetur ákvað ferðanefndin að fara lengra til og auglýsa ferð í eyðibyggðirnar í Fjörðum og skoða náttúrufegurðina sem þar er rómuð og var áætlað að leggja af stað föstudaginn 15. ágúst.

„Öllum að óvörum var bankað upp á hjá okkur og stóð þar í gættinni þýskt par sem beiddi gistingar þar sem það var orðið kalt og þrekað eftir langa göngu með þungar byrgðar yfir fjöll og vegleysur og treystu þau sér ekki til að liggja í tjaldi um nóttina. Vildu þau jafnvel fá að sofa í forstofunni þar sem skítugur skóbúnaður var geymdur og vot regnföt héngu til þerris.

Parið unga var drifið inn í hlýjuna, því gefið hangikjöt að borða og heitt að drekka og svo var sungið og spilað vel fram yfir miðnætti fyrir þau áður en þau náttuðu sig meðal illa þefjandi hestamanna sem einnig hentu sér í pokana eftir góðan dag.“

Ofangreind frásögn er partur af ferðasögunni sem Páll Friðriksson, einn af ferðalöngunum, skrásetti fyrir Feyki og sendi blaðinu til birtingar. Er ferðasagan í heild birt í blaðinu í dag og kunnum við Páli bestu þakkir fyrir.

Fleiri fréttir