Skólavogin - boðið að gerast aðilar að norsku gæðakerfi
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið að tilraunaverkefni sem kallast Skólavogin frá árinu 2007 og hafa í tengslum við það kannað árlega viðhorf nemenda, foreldra og starfsfólks til nokkurra þátta í skólastarfinu. Skólavogin byggist á norsku gæðastjórnunarkerfi sem íslensku sveitarfélögum býðst nú að gerast aðilar að.
Útgáfufélag norsku sveitarfélagssambandanna, eða Kommuneforlaget-KF, hefur frá árinu 2001 þróað og haldið út umrætt gæðastjórnunarkerfi sem norsku sveitarfélögin hafa notað við mælingar á ýmsum þjónustuþáttum í starfsemi sinni og skoðar tengsl útgjalda, árangurs og gæða á þeirri þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Fyrir nokkrum árum yfirtók norska ríkið þann hluta kerfisins sem sneri að grunnskólunum og er öllum grunnskólum þar í landi nú skylt að nota þetta gæðakerfi.
Ávinningur af umræddu gæðastjórnunarkerfi er m.a. betri yfirsýn yfir rekstur og nýtingu fjármuna, aukin innsýn í skólabraginn, auðveldar samanburð á eigin frammistöðu yfir tíma og samanburð á milli skóla og sveitarfélaga, svo fleira mætti upptelja. Nánari upplýsingar um kerfið er að finna á síðunni bedrekommune.no.
Talverður áhugi er á meðal sveitarstjórnarmanna og skólafólks á Íslandi að taka upp þetta kerfi og þarf ákvörðun sveitarfélaganna að liggja fyrir þann 15. desember nk.