Skotíþróttafólk Markviss 2017 eru Jón Brynjar og Snjólaug
Keppnistímabilinu er nú lokið í þeim skotgreinum sem stundaðar eru utanhúss og átti Skotfélagið Markviss níu keppendur í hagla- og kúlugreinum á keppnintímabilinu.
Stjórn Markviss hefur nú tilnefnt skótíþróttafólk úr sínum röðum til titilsins íþróttamaður ársins innan USAH. Að venju voru valdir einstaklingar úr bæði hagla- og kúlugreinum og árangur keppenda hafður til hliðsjónar við valið. Þau Snjólaug M.Jónsdóttir og Jón Brynjar Kristjánsson urðu fyrir valinu að þessu sinni en árangur þeirra beggja á árinu var frábær að því er segir í pistli frá stjórn félagsins á Húna.is.
Aðalkeppnisgrein Snjólaugar er Ólympískt Skeet þar sem hún vann alla titla sem í boði voru auk þess sem hún jafnaði Íslandsmet kvenna í final. Einnig keppti Snjólaug á Íslandsmeistaramótinu í Nordisk Trap sem fram fór á Akranesi. Varð hún sigurvegari í mótinu ásamt því að setja Íslandsmet í kvennaflokki. Snjólaug keppti á tíu mótum í þremur mismunandi haglagreinum og náði alls staðar mjög góðum árangri.
Aðalkeppnisgrein Jóns Brynjars undanfarin ár hefur verið BR50. Hann hafnaði í verðlaunasæti á öllum BR50 mótum sem hann tók þátt í á þessu ári. Einnig hefur hann verið að fikra sig yfir í keppnisgreinar með stærri rifflum og náð góðum árangri, t.d. hafnaði hann í fjórða sæti á Íslandsmeistaramóti STÍ í VFS (Varmint for Score) sem haldið var af Skotfélagi Húsavíkur nú í haust. Jón Brynjar keppti á tólf mótum með góðum árangri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.