Skotta gerir samning við RUV

Skotta kvikmyndafjelag skrifaði nýverið undir samning þess efnis að það tæki að sér upptöku- og tæknivinnu fyrir Fréttastofu RUV þar sem Skagafjörður og Húnavatssýslur verði aðal fréttasvæðið.

-Þetta er jákvætt og gott skref fyrir Skottu. Ríkisútvarpið er öflugasti fjölmiðill landsins og Fréttastofa RUV sú sem nýtur mests trausts meðal landans. Þarna fáum við líka aðgang að mjög reyndu og færu fólki, segir Árni Gunnarsson eigandi Skottu.

Samningur Skottu við Fréttastofu RUV felur í sér efnisöflun fyrir sjónvarpsfréttir héðan af svæðinu, íþróttafréttir og efnisöflun fyrir fréttaþáttinn Landann. -Ég er ánægður með þetta samstarf og vonandi verður það til hagsbóta fyrir alla aðila, okkur, Fréttastofuna og íbúa á svæðinu.  

Starfsemi Skottu fluttist um áramótin í nýtt húsæði við Aðalgötu 24 á Sauðárkróki, þar sem rafmagnsverkstæðið Tengill var áður til húsa. Þar eru 3-4 starfsmenn að staðaldri í kvikmyndagerð, upptökum á tónlist og hljóðvinnslu.

Hvað er aðallega í vinnslu hjá ykkur núna?

-Við erum að skila fimm sjónvarpsþáttum til sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN, sem sýndir verða í febrúar og mars. Vídeógagnagrunnur með sjónvarpsefni úr landbúnaði og sjávarútvegi er í vinnslu. Stærsta verkefnið er að ljúka við gerð heimildarmyndar um lífskúnstnerinn Bjarna Haraldsson, kaupmann á Sauðárkróki. Að auki höfum við verið að vinna myndefni og hljóðsetja fyrir Kaupfélag Skagfirðinga og fleiri, segir Árni.

Fleiri fréttir