Skúffelsis ósigur Stólastúlkna í Síkinu

Tess Williams gerði helming stiga Tindastóls gegn ÍR. Hér er hún í leik gegn Haukum á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA
Tess Williams gerði helming stiga Tindastóls gegn ÍR. Hér er hún í leik gegn Haukum á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og ÍR mættust í Síkinu í gær í leik þar sem lið Tindastóls gat tryggt stöðu sína á toppi 1. deildar kvenna fyrir jólafrí. Leikurinn var jafn og spennandi en það var lið ÍR sem leiddi nánast allan leikinn en Stólastúlkur voru hársbreidd frá því að stela sigrinum af Breiðhyltingum en lukkudísirnar voru ekki í liði Tindastóls á lokamínútunni. Lokatölur í skúffelsis ósigri voru 62-64.

Það var Króksari sem gerði fyrstu sjö stig leiksins en því miður er Birna Eiríks (Hansen) í liði ÍR og færði Breiðhyltingum semsagt fljúgandi start. Eftir tæplega sex mínútna leik var staðan 5-14 en heimastúlkur náðu að koma sér betur inn í leikinn í framhaldinu og staðan var 14-19 að loknum fyrsta leikhluta eftir körfu frá Katrínu Evu á lokasekúndunum. Tess Williams, sem átti ágætan leik, lét til sín taka í öðrum leikhluta og hún minnkaði muninn í þrjú stig, 26-29, um miðjan annan leikhluta. Hún var aftur á ferðinni rétt fyrir hlé þegar hún setti niður þrist og víti í kjölfarið og staðan í hálfleik 32-35.

Lið ÍR hóf síðari hálfleik betur en heimastúlkur og þær náðu fljótlega tólf stiga forystu eftir þrist frá Nínu Jennýju. Tess svaraði að bragði en forskot ÍR var yfirleitt átta til tíu stig. Líkt og í fyrri leikhlutum leiksins söxuðu Stólastúlkur á forskot gestanna þegar á leið og Marín Lind minnkaði muninn í 49-54 rétt áður en þriðji leikhluti kláraðist. Birna Eiríks var uppeldisfélagi sínu erfið í gær og hún gerði fyrstu stig fjórða leikhluta og Sólrún Sæmunds fylgdi því eftir með þristi og ÍR-liðið enn of aftur komið með tíu stiga forskot. Nú skelltu Stólastúlkur í lás í vörninni og hófu enn og aftur að saxa á forystu gestanna. Telma Ösp gerði laglega körfu þegar þrjár mínútur voru eftir og staðan 57-61 fyrir ÍR. Skömmu síðar setti Tess niður þrist og nú munaði aðeins einu stigi og þegar rúm mínúta var eftir setti hún niður tvö víti og kom liði Tindastóls yfir í fyrsta skiptið í leiknum. 

Aníka Linda svaraði fyrir ÍR með of auðveldri körfu eftir mistök í vörn Tindastóls. Næstu sekúndur var spennan mikil, Tess klikkaði á skoti en lið Tindastóls varðist vel og vann boltann þegar 25 sekúndur voru eftir af leiknum en dómarar leiksins dæmdu af þeim boltann, töldu að þær hefðu verið of lengi að koma boltanum yfir miðju en það virtist nokkuð vafasamur dómur. ÍR fékk því boltann en Telma Ösp var fljót að stela honum þegar 10 sekúndur voru til leiksloka. Árni Eggert, þjálfari Tindastóls, tók leikhlé og þegar leikurinn hófst á ný fékk Tess boltann, hún kom honum í hægra hornið á Marínu Lind en ágætt skot hennar small á hringnum og lið ÍR vann boltann. Sólrún bætti við einu stigi fyrir ÍR úr víti á lokasekúndunni og Breiðhyltingar unnu því sætan hefndarsigur á Stólastúlkum sem höfðu stolið sigrinum í Breiðholtinu fyrr í vetur með lokaskoti leiksins.

Það er gríðarlegur pakki á toppi 1. deildarinnar en í raun eru fimm lið að berjast um efsta sætið. Lið Tindastóls er með 16 stig líkt og lið Fjölnis sem á leik til góða. Lið ÍR og Keflavíkur eru með 14 stig og eiga leiki inni og sömuleiðis Njarðvík sem er í fimmta sæti með 12 stig.

Tess var atkvæðamest í liði Tindastóls, gerði helming stiga liðsins, 31, og tók átta fráköst. Marín Lind var með 13 stig en Valdís Ósk og Telma Ösp voru báðar með sex stig. Eva Rún var með fjögur stig, fimm fráköst og fjórar stoðsendingar og  Karen Lind tók níu fráköst en klikkaði á öllum sex skotum sínum að þessu sinni. Lið Tindastóls tapaði 22 boltum en lið ÍR 19 og gestirnir tóku heldur fleiri fráköst (43/48). Þá áttu gestirnir 25 stoðsendingar í leiknum en Stólastúlkur 12. Nína Jenný var atkvæðamest í liði ÍR með 16 stig og 14 fráköst og Birna var með 15 stig.

Lið Tindastóls er nú komið í jólafrí en fyrsti leikur liðsins á árinu 2020 er gegn sterku liði Fjölnis hér heima þann 4. janúar kl. 16:00. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir