Skýrsla um kolefnisspor Norðurlands vestra komin út

Út er komin skýrslan Kolefnisspor Norðurlands vestra sem er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands vestra árin 2018-2019. Skýrslan er unnin af Stefáni Gíslasyni hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV.

Í inngangi skýrslunnar segir að útreikningur á kolefnisspori Norðurlands vestra sé frumkvöðlaverkefni, þar sem þetta sé í fyrsta sinn sem losun gróðurhúsalofttegunda sé reiknuð fyrir heilan landshluta á Íslandi. Verkefnið sé áhersluverkefni sóknaráætlunar landshlutans fyrir árin 2018 og 2019 og endurspegli skilning SSNV á mikilvægi loftslagsmála fyrir framtíð svæðisins. Verkefninu sé ætlað að vera mikilvægt fyrsta skref í átt að kolefnishlutleysi svæðisins sem með tímanum ætti að skapa tækifæri sem styrki byggð í landshlutanum.

Í skýrslunni kemur fram að langstærsti þátturinn í losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlandi vestra sé landnotkun, og þá fyrst og fremst framræsla votlendis. Því sé endurheimt votlendis á óræktuðum framræstum jarðvegi áhrifamesta leiðin til að draga úr losun en jafnframt sé mikilvægt að leita allra annarra leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Þar sé eðlilegt að beina sjónum sérstaklega að leiðum til að minnka notkun jarðeldsneytis, en líta megi á brennslu þess sem rót loftslagsvandans sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Fram kemur í skýrslunni að útreikningar á kolefnisspori geti aldrei orðið 100% réttir eða óvéfengjanlegir. Útreikningar skýrslunnar gefi þó mikilvægar vísvendingar um hvar brýnast sé að grípa til aðgerða og hvaða aðgerðir séu líklegastar til að skila mestum árangri í að minnka kolefnisspor landshlutans. 

Stefán hélt kynningu á fyrstu niðurstöðum skýrslunnar á umhverfisráðstefnu SSNV sem haldin var á Húnavöllum þann 28. maí sl. Hafa þær niðurstöður ekki tekið breytingum frá þeim tíma og er erindi Stefáns aðgengilegt á facebook síðu SSNV á slóðinni  https://www.facebook.com/ssnordurlandvestra/videos/302348763976364/  (hefst á 10. mínútu upptökunnar).

Í frétt á vef SSNV segir að starfsfólk SSNV muni nú skoða hver næstu skref verkefnissins verði og gera um það tillögu til stjórnar samtakanna. 

Skýrsluna Kolefnisspor Norðurlands vestra er að finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir