Slagkraftur launþega er mikill

Ásgerður Pálsdóttir formaður Samstöðu er í ítarlegu viðtali í Feyki vikunnar. Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður ræðir við hana um félagið og komandi kjaraviðræður. Aðalskrifstofan er á Blönduósi, en einnig er félagið með skrifstofu á Hvammstanga. Ásgerður segir að margir leiti til félagsins.

„Já, það er oft mikið að gera hjá okkur. Við bætist að á svæðinu eru ekki margar opinberar stofnanir sem fólk getur haft samskipti við með beinum hætti og leitar þess vegna til okkar um upplýsingar eða aðstoð. Sum mál eru lítið eða ekkert tengd launamálum. Ég hef átt ansi mörg trúnaðarsamtöl við fólk, sem hefur snúið sér til okkar. Þá er alltaf töluverð vinna í kringum  starfsemi sjóða félagsins. Mörg erindi til okkar lúta að túlkun kjarasamninga og aðstoð við launaleiðréttingar eða innheimtu launa. Ágætur félagi líkti starfseminni við þjónustumiðstöð með sálgæsluívafi, sem er á vissan hátt rétt. Öll erindin eiga það hins vegar sameiginlegt að um fólk er að ræða, sú staðreynd má aldrei gleymast.“

Ekki bjartsýn í upphafi kjaraviðræðna

Ásgerður segist ekki vera ýkja bjartsýn í upphafi kjaraviðræðna. „Nei, ég það ekki, rétt eins og aðrir kollegar mínir. Við heyrum tóninn í talsmönnum Samtaka atvinnulífsins, sem tala fyrir því að semja á „hóflegum“ nótum.  Og við bætist að sjálfur seðlabankastjóri virðist vera á bandi vinnuveitenda, þótt hann komi ekki til með að sitja samningafundina. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa nokkrar  starfsgreinar samið um verulegar kjarabætur og almennir launþegar geta ekki sætt sig við að fá allt aðra meðhöndlun við samningaborðið. Stéttarfélagið Samstaða og fimmtán félög til viðbótar hafa sent samningsumboð sín til Starfsgreinasambands Íslands. Samvinna þessara félaga er góð, þannig að slagkrafturinn er mikill. Við teljum að baklandið sé traust og verkalýðshreyfingin sest við samningaboðið með það að leiðarljósi að ná fram ásættanlegum samningum. Við  munum ekki sætta okkur við að sitja eftir í launum eða kjörum, miðað við aðra hópa. Sumir hafa talað um að kaldur kjaravetur sé í farvatninu og ég get tekið undir þau orð. Eins og staðan er núna gæti jafnvel komið til einhverra aðgerða af okkar hálfu, jafnvel að grípa þurfi til verkfallsvopnsins. Ég er hins vegar bjartsýn að eðlisfari og leyfi mér að vona að almennir launþegar fái réttlátar kjarabætur. Þeir hafa sannarlega lagt sitt að mörkum til þjóðfélagsins og eiga að njóta þess. Við mætum vel undirbúin til kjaraviðræðnanna,“ segir Ásgerður Pálsdóttir formaður Stéttarfélagsins Samstöðu.

Nánar í Feyki.

Fleiri fréttir