Sláttur hófst í gær í Skagafirði

Eftir góðan vetur og ljómandi vor er komið að slætti þetta sumarið. Mynd: Gígí.
Eftir góðan vetur og ljómandi vor er komið að slætti þetta sumarið. Mynd: Gígí.

Sláttur hófst í Viðvík í Skagafirði í gær 30. maí og hefur Feyki ekki haft fregnir um það að bændur í firðinum hafi byrjað fyrr þetta sumarið. Í samtali við Feyki sagði Guðríður Magnúsdóttir að sprettan væri óvenju góð og hefði sláttur hafist um síðustu helgi á bænum ef þau hjón hefðu verið heima.

Guðríður segir að sláttur hefði einnig hafist snemma á síðasta sumri í Viðvík eða fyrstu dagana í júní. Aldrei hefði verið byrjað í maí líkt og nú. Slegið var eitt stykki, en nú er væta og rigningaspá framundan og því verður haldið að sér höndum þangað til styttir upp. Alls verður hirt af 125 hekturum í sumar, bæði hey og grænfóður sem er aukning því alls 20 um hektarar af nýrækt verður nýtt í sumar.

Blandað bú er í Viðvík og eru þau Guðríður og Kári Ottósson með um 50 kýr, 170 kindur og „svo er þetta eins og hjá öðrum Skagfirðingum að það er ómögulegt að vita hvað eru mörg hross,“ segir Guðríður og hlær en fullyrðir að þau séu undir 40 talsins. 

Búast má við því að heyskapur hefjist á fullu hjá bændum norðanlands þegar sólin lætur sjá sig almennilega.

Fleiri fréttir