Smábátasjómenn óttast um afkomu sína
Tímabundið ákvæði um bann við veiðar með dragnót, sem komið var á á árunum 2010 til 2013, féllu úr gildi á nokkrum svæðum fyrir Norðvesturlandi frá 1. nóvember sl. Megin rökin fyrir banninu voru þau að friða innri hluta flóa og fjarða fyrir veiðum með dragnót og auka friðun grunnslóðar fyrir dregnum veiðarfærum og jafnframt mæta kröfum heimaaðila um verndun lífríkisins og skipulag hafsvæða. Dragnótabátum er því heimilt að veiða á ný, án landfræðilegra takmarkana, á Hrútafirði, Miðfirði, Húnafirði og Skagafirði.
Með opnun dragnótaveiða inn í botn Skagafjarðar segja smábátasjómenn á svæðinu að fótunum sé undan þeim kippt. Drangey, smábátafélag Skagafjarðar, hefur unnið að því hörðum höndum að fá sjávarútvegsráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, til að framlengja bannið en enn án árangurs. „Á aðalfundi Drangeyjar í haust var þessari opnun alfarið hafnað og óskað eftir því að um varanlega lokun yrði að ræða,“ segir Steinar Skarphéðinsson, formaður félagsins. Segir hann mikið hafi verið reynt til að fá bannið framlengt m.a. með liðsinni Svf. Skagafjarðar. „Við byrjuðum strax í haust á því að skrifa bréf til sveitastjórnarinnar og biðja hana að mótmæla þessu í gegnum byggðarráð og atvinnunefnd. Svo erum við búnir að skrifa ráðuneytinu bréf,“ segir Steinar. Hann segir að með afléttingu bannsins sé fótunum kippt undan smábátaútgerðinni, sérstaklega á Hofsósi.
Byggðarráðið tók málið fyrir snemma í október og styður smábátasjómenn í baráttu sinni. Í bókun ráðsins segir m.a. „Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir harðlega ákvörðun ráðherra um afléttingu friðunar á hluta Skagafjarðar fyrir dregnum veiðarfærum s.s. dragnót og leggst gegn breytingum á takmörkunum við notkun veiðarfæra við veiðar samkvæmt krókaaflamarki. Sveitarfélagið harmar að ekki hafi verið tekið tillit til umsagnar sveitarfélagsins sem send var frá sveitarfélaginu þann 13. október sl. og ítrekað þann 31. október sl. Byggðarráð skorar á ráðherra að endurskoða ákvörðun sína og óskar eftir fundi með ráðherra vegna málsins hið fyrsta.“
Í mikilli óþökk heimabáta
Í Feyki, sem kom út í dag, eru viðtöl við sjómennina Hjálmar Höskuldur Hjálmarsson og Jónas Einarsson sem gera út frá Hofsósi en þeir lýsa því báðir yfir að fótunum sé undan þeim kippt með afléttingu bannsins. „Þetta eru gríðarlegir hagsmunir fyrir þessa heimabáta og nú er búið að kippa þessum grundvelli undan þeim eftir að svæðið var opnað,“ segir Hjálmar og telur einsýnt að sjálfhætt verði hjá honum að stunda línuveiðar við óbreytt ástand.
Bjarni Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, segir að sjávarútvegsráðherra styðjist við fremur fátækleg gögn við ákvörðun sína um að opna Skagafjörð, og fleiri svæði, aftur fyrir dragnótarveiði eftir sjö ára friðun fyrir slíkum veiðarfærum. Að mestu sé stuðst við gamla skýrslu eða greinargerð frá starfsmönnum á Hafrannsóknastofnun þar sem dregnar voru ályktanir og settar fram fullyrðingar á litlum sem engum gögnum, sem ekki fái staðist, samkvæmt álitum þriggja óháðra sérfræðinga sem á sínum tíma voru fengnir til að leggja á hana mat.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.