Sögustund í Skagafirði

Út er komin leiðsögn um hluta Skagafjarðar. Hljóðleiðsögn á geisladiski, bæklingur um nokkra sögufræga áningarstaði og gönguleiðsögn um Krókinn. Geisladiskurinn er settur í spilarann í bílnum, keyrt á jöfnum hraða hringur í firðinum og vegfarandinn hlustar á frásagnir frá fornu fari til dagsins í dag.

Hljóðleiðsögnin leiðir hlustanda á milli áningarstaða og meira efni um þá er í bæklingnum um áningarstaðina. Leiðsögnin hefst við Arnarstapa og er keyrt út fjörðinn á Krókinn með viðkomu á þremur stöðum. Sérbæklingur er fyrir Krókinn þar sem gengið er um göturnar í gamla bænum og lesið um sögu húsanna. Síðan heldur ferðin áfram yfir Hegranesið með viðkomu á forna þingstaðnum og fram Blönduhlíð þar sem farið er milli sögufrægra staða eins og Flugumýrar, Haugsness og Örlygsstaða. Ferðin endar við Skeljungshöfða á móts við veginn fram Kjálka. Hægt er að byrja ferðina á hvaða áningarstað sem er.

Sögustundin fæst í Kompunni, Skagfirðingabúð, Upplýsingamiðstöðinni og KS í Varmahlíð.

Höfundur er Kristín Jónsdóttir og er þetta mastersverkefni hennar í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands

Fleiri fréttir