Söngskemmtun í Hólaneskirkju

Óskar Pétursson og Hjalti Jónsson verða með söngskemmtun í Hólaneskirkju á Skagaströnd nk. föstudagskvöld. Þar munu félagarnir flytja létta dagskrá í tali og tónum við undirleik Eyþórs Inga.

Á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagastrandar má sjá nánari upplýsingar um viðburðinn en þar segir um söngvarana:

„Óskar er frá Álftagerði í Skagafirði og er einn ástsælasti söngvari landsins og hefur hlýjað mörgum með söng sínum við ýmsar athafnir og tónleika. Hann var bæjarlistamaður Akureyrar fyrir nokkrum árum. Hjalti er ættaður frá Blönduósi og lauk prófi í klassiskum söng vorið 2009 og hefur síðan þá sungið við fjöldamörg tækifæri sem einsöngvari enda er hann hörkusöngvari og skemmtikraftur.“

Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli. Það kostar ekkert inn á skemmtunina og allir eru velkomnir.

 

Fleiri fréttir