Söngur vonar - Sólmundur Friðriksson
Austfirðingurinn og fyrrverandi bassaleikari í Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, Sólmundur Friðriksson, stundaði nám við FNV vel fyrir síðustu aldamót og er mörgum norðlendingum kunnur. Fyrir skömmu gaf hann út sinn fyrsta hljómdisk, Söngur vonar, sem inniheldur ellefu lög sem eru flest samin á þessari öld, að undanskildu einu lagi sem varð til þegar hann var um 12 ára. Tónlistin er frekar í mýkri kantinum og hefur verið skilgreind af gagnrýnanda sem „soft rock“.
Sólmundur segist vera Austfirðingur í húð og hár, alinn upp á Stöðvarfirði en fór þaðan eftir barnaskóla og hefur búið víðs vegar t.d. á Sauðárkróki, í Reykjavík, á Þingeyri og Flúðum; Noregi og svo í Keflavík, þar sem hann hefur verið búsettur síðustu ár. Hann er giftur Hafdísi Lúðvíksdóttur og eiga þau saman eina fósturdóttur, Petreu Mist, en einnig á hann tvær eldri dætur af fyrra hjónabandi, Þær Hildi og Agnesi. Sólmundur er menntaður grunnskólakennari en vinnur nú sem öryggisvörður á Keflavíkurflugvelli.
Hvað getur þú sagt mér frá disknum? -Platan mín, Söngur vonar, er mín fyrsta sólóplata og inniheldur 11 lög sem eru flest samin á þessari öld, að undanskildu einu lagi sem varð til þegar ég var um 12 ára. Tónlistin er frekar í mýkri kantinum og hefur verið skilgreind af gagnrýnanda sem „soft rock“. Textarnir eru persónulegir, fjalla um lífið og tilveruna á eins heiðarlegan og opinskáan hátt og mér hefur verið unnt. Á plötunni fæ ég til liðs við mig góða og vel valda tónlistarmenn sem flestir tengjast mér á einn eða annan hátt böndum fjölskyldu, vina eða samstarfs. Það eru þeir Arnór Vilbergsson á hammond, Ingvar Alfreðsson á píanó og orgel og Þorvaldur Halldórsson á trommur, einnig blásararnir Matthías Birgir Nardeau á óbó og Ari Bragi Þorsteinsson á trompet. Ég spila allan bassa og syng flest lögin en dætur mínar Hildur og Agnes, syngja sitt lagið hvor, auk þess sem Birta Sigurjónsdóttir jazzsöngkona syngur eitt lag. En sá sem stendur fremst í þessum hópi er snillingurinn Davíð Sigurgeirsson, sem heldur utan um allar útsetningar og hljóðvinnslu, auk þess að sjá um nær allan gítarleik. Hann fékk svo pabba sinn, hinn alkunna rokkara, Sigurgeir Sigmunds, til að spila með sér dúett í instrumental laginu „Blús fyrir Agga“.
Hvað hefur þú unnið lengi við diskinn? -Aðdragandinn er búinn að vera rúm 10 ár en hin eiginlega vinna hófst nú í vor, þegar ég settist fyrst yfir þetta með Davíð. Upptökur fór svo fram í sumar og lauk um það leyti sem titillagið kom út, sem var á Youtube 28. ágúst.
Var eitthvað sem kom þér á óvart við gerð disksins? -Alveg furðu margt, verð ég að segja. Ég hafði aðeins komið að vinnu við upptökur áður og taldi mig vita vel að hverju ég gengi, en þessi heimur hefur breyst svo mikið á síðustu árum, og þar á ég aðallega við vinnubrögðin við hljóðvinnsluna og alla möguleikana sem þar eru í boði. Svo er þetta ferli líka búið að vera mjög gagnlegt fyrir mig sem söngvara. Maður er sífellt að hlusta og pæla í röddinni meðan á þessu stendur, eiginlega að kynnast sjálfum sér uppá nýtt, og svo heldur þetta áfram eftir að platan er komin út, þegar maður fer að hlusta. Eins og mér líður í dag þá finnst mér ég koma út úr þessu sem betri söngvari. En svo kemur bara í ljós hvað öðrum finnst.
Hefur þú gefið eitthvað út áður? -Nei, þetta eru fyrstu skrefin mín í að gefa út tónlist en ekki þau síðustu ef ég fæ einhverju um það ráðið, því ég á nóg eftir í pokahorninu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.