Söngurinn ómaði í Kanada
Karlakórinn Lóuþrælar í Húnaþingi héldu í menningarreisu í 10 daga til Kanada í lok júlí. Markmið ferðarinnar var m.a. að taka þátt í hátíðarhöldum Íslendingadaga, og verða þannig fulltrúar íslenskrar sönghefðar með löndum sínum í Vesturheimi. Þema kórsins var „ Í vesturveg“ .
Undirbúningur ferðarinnar hafði staðið í á annað ár, og var ferðin skipulögð af Jónasi Þór, sem annast m.a. ferðir milli þessara landa. Jónas var einnig fararstjóri hópsins og leiðsögumaður, kunni hann ýtarleg skil á sögu vesturfaranna. Einkum var dvalist á þeim slóðum, sem íslendingabyggðin var til forna, en formlega eru þær taldar hefjast árið 1875. Kórfélagar voru um 25, en hópurinn allur taldi 56 manns. Ferðin tókst í alla staði vel og var óhappalaus með öllu.
Flogið var 28. júlí til Winnipeg, um 6 klst ferð. Gist var á DELTA hóteli, sem reyndist hið besta. Þann 30. hélt hópurinn til Bandaríkjanna, í um 3 klst ferð, til bæjarins Grand Forks. Markmiðið var að taka þátt í hátíðarhöldum í smábænum Mountain í Norður Dakoda þann 31. Þar var samankominn stór hópur fólks af íslensku bergi brotinn; ræður fluttar og kórsöngur í bland. Eftir hátíðarhöld fór Jónas með hópinn í skoðunarferð um nágrennið. Var komið á búgarð, sem fyrrum bjó Stefán G. Stefánsson. Minnisvarði er þar um hann og rökrétt að einsöngvari kórsins, Guðmundur á Neðra Núpi syngi erindi úr ljóði hans, „Þótt þú langförull legðir“. Heimsóttir tveir búgarðar og skoðaður vegur, þar sem skinnakaupmenn fóru fyrrum, frá norðursvæðum Kanada til borga í suðri, ferðir sem tóku 4-5 mánuði með uxaeykjum. Loks var komið að gröf Káins, vísnaskáldsins kunna. Formaður Lóuþræla, Rafn á Staðarbakka, gaf gamla manninum örlitla lögg af íslensku brennivíni og Árni á Bálkastöðum bætti við nokkum kornum af neftóbaki. Þá hélt hópurinn á hátíðarsvæðið og skyldi snæða dýrindis kvöldverð undir berum himni. Á augabragði skall á stórviðri með regni, þrumum og eldingum. Þeir sem fengið höfðu á diskana ætluðu að ljúka máltíð úti, en hröktust inn í rútu gegndrepa. Veðrið stóð í um hálftíma en þó rigndi stíft áfram. Vertarnir buðu þá gestum að sækja mat í eldhúsið, sem var að mestu snætt í rútunni. Úti var allt á tjá og tundri og sögðu menn þetta ekki góða kynningu fyrir heimsókn Lóuþræla, minnti mest á útihátíð sem var fyrrum á Kaldármelum. Engir eftirmál urðu þó.
Mánudaginn 2. ágúst var haldið til Gimli, um 5 þúsund manna byggð á bökkum Winnipegsvatns, um 90 km til norðurs. Þar eru veglegustu hátíðarhöld íslendingadaga. Kl. 10 var haldið af stað í skrautakstur, þar sem hundruðir fararækja óku eftir götum bæjarins. Sjá mátti allt frá fornum eðalvögnum til nýjustu farartækja, fjölskyldubíla, dráttarvéla af öllum aldri og ótal annarra ökutækja. Hópnum okkar var úthlutaður stór flatvagn, sem raðað hafði verið á hálmbökkum til ásetu. Guðmundur Þ sat hátt fremst á vagni og spilaði á harmonikku og allur hópurinn, karlar og konur sungu af hjartans list, upp úr „bláu bókinni“, sem Guðmundur St. söngstóri hafði útbúið fyrir ferðina. Þetta reyndist einn af hápunktum ferðarinnar, því samfelldar raðir voru af fólki á götubrún - þúsundir manna - sem m.a.fagnaði sönghópnum af mikilli innlifun. Margir tóku undir íslensku sönglögin, kölluðu „velkomin“ og „góðan daginn, íslendingar“ Að skrúðakstri loknum var komið á aðalhátíðarsvæðið. Þar söng karlakórinn í um hálfa klukkustund, konsert að eigin vali – hitinn var um 30 °C logn og glampandi sól, svitnuðu þá margir söngmenn að framan og aftan.
Kl. 14 hófst hátíðardagskrá formlega – ræður og viðurkenningar veittar, margir háttsettir úr íslendingasamfélagi vestan hafs komu í pontu og einnig Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem var heiðursgestur hátíðarhaldanna, hún var einnig í N-Dakota. Fjallkonan leidd á hátíðarsvæðið og flutti hún ávarp. Kórinn söng milli atriða, m.a. þjóðsöngva Kanada, Bretlands og Íslands. Um kvöldið snæddi ferðahópurinn saman á Round Table í Winnipeg, þar sem staðurinn er í eigu íslendinga.
Þann 4. ágúst var enn haldið norður, komið við í Árborg, sem er byggð nokkru norðar Gimli, skoðað heimili og handverk ábúenda, en Einar bóndi er kunnur snillingur í tálgun og málun fugla, Rósalind kona hans hefur æft upp stúlknakór, sem syngur eingöngu íslensk lög. Hún hefur komið með kórinn til Íslands. Þá voru minjasöfn skoðuð, m.a. kirkja, sem Íslendingar og Úrkaníumenn höfðu reist saman. Þá var haldið í hádegisverð í samkomuhúsinu, þar var samankominn hópur fólks af íslenskum uppruna. Næst var ekið út í Mikley - Heckla Island. Þar var skoðaður gamall skóli, sjóminjasafn og kirkja. Saman söng þar hópurinn „Ó faðir gjör mig lítið ljós“ svo heyrðist út um byggðina. Undir kvöld var svo haldið í menningarmiðstöð Riverton byggðar, en þar skyldi halda tónleika. Góðar móttökur og veitingar voru við komuna og tónleikarnir tókust afar vel. Nokkur hundruð manns voru í sal og sjá mátti ýmis svipbrigði hjá gestum, fögnuð og jafnvel tár á hvarmi. Sem mark um áhrifin má geta, að á fremsta bekk sat ung stúlka - víst úr stúlknakór Rósalindar - hún var með prjónana sína, en fylgdist vel með. Þegar Guðmundur Þorbergs söng „Þótt þú langförull legðir“ virtist hún missa niður lykkju og hakan seig niður. Kórnum var afar vel þakkað og reis fólk úr sætum fyrir kór, stjórnanda og undirleikaranum Elinborgu Sigurgeirsdóttur, sem skartaði íslenskum búningi við alla tónleika kórsins. Hópurinn söng svo í rútunni, alla leið til Winnipeg.
Aðra daga en upptalda atburðadaga hélt hópurinn sig í Winnipeg, fór „örsjaldan“ í mollin, einnig í skoðunarferðir og ættarheimsóknir. Bjargs- og Bessastaðafólk (12 manns) var sótt á hótelið á svartri limmósíu – sem þjónar við útfararstofu Bardals afkomanda, þóttu áhorfendum þetta skrýtin uppákoma. Allir skiluðu sér þó á hótelið.
Í lokahófi hópsins kvöldið fyrir brottför, var margt til gamans gert. Jónas fararstjóri fékk að fara í hlutverk fjallkonunnar. Fjallkóngar í hópnum voru þar í aukahlutverkum, en Jónas, uppáklæddur fékk aðalathyglina. Eins var stofnuð kvennadeild Neftóbaksfélagsins, og voru þrjár konur innvígðar með athöfn. Þá var sungið úr Bláu bókinni og Rafni formanni og Guðmundi St. Söngstjóra færðar gjafir fyrir þeirra miklu vinnu við skipulag ferðarinnar. Heimferð gekk að óskum, þá flogið á móti tíma og lent kl. 6 í Keflavík, ferðin á enda.
Texti: Karl Sigurgeirsson
Myndir: Páll Björnsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.