Spilmenn Ríkínís með tónleika í Auðunarstofu
Spilmenn Ríkínís halda tónleika í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal föstudagskvöldið 26. júní. Spilmenn Ríkínís hafa leikið og sungið saman í rúm 13 ár. Þeir hafa einkum flutt tónlist úr íslenskum handritum og af gömlum sálmabókum en einnig úr íslenskum þjóðlagaarfi. Við flutninginn er sungið og leikið á hljóðfæri sem til voru á Íslandi fyrr á öldum og eiga flest sinn sess í miðaldatónlist Evrópu, svo sem langspil, hörpu, gígju og symfón.
Nokkur þessara hljóðfæra hafa meðlimir hópsins smíðað sjálfir en önnur hafa verið smíðuð af bestu fáanlegu hljóðfærasmiðum. Hópurinn kennir sig við Ríkíní sem var fyrsti söngkennari Hólaskóla þegar hann var stofnaður í upphafi 12. aldar. Hópurinn er nú að undirbúa aðra plötu sína, Gullhettu, sem áætlað er að komi út í haust en hin fyrri plata, Ljómalind, kom út árið 2009 og er nú löngu ófáanleg. Á Gullhettu verða ljóð og tónlist sem tengjast sumri og ástarbralli ýmiskonar.
Spilmenn Ríkínís hafa komið fram á ótal tónleikum og tónlistarhátíðum bæði hér heima og erlendis.
Á tónleikunum á föstudagskvöld í Auðunarstofu á Hólum verða sungnir enskir madrigalar og endurreisnarmótettur; leikin og sungin þjóðlög úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar, og Maríutónlist úr fornum handritum og af prentuðum bókum, meðal annars úr Hólaprenti. Einstök stemning skapast í Auðunarstofu við flutning þessarar fornu tónlistar.
Meðlimir Spilmanna Ríkínís eru:
Ásta Sigríður Arnardóttir sem syngur og leikur á langspil, Marta Guðrún Halldórsdóttir sem syngur og leikur á langspil, symfón og hörpu, Örn Magnússon sem syngur og leikur á symfón, langspil og hörpu og Halldór Bjarki Arnarson sem syngur og leikur á hörpu, gemsuhorn og langspil.
/Fréttatilkynning