Starfsleyfi bensínstöðvarinnar á Hofsósi rann út 1. janúar sl.
Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra í gær var N1 gefinn frestur til 10. febrúar nk. til þess að skila fyrstu niðurstöðum í mengunarmáli olíustöðvar fyrirtækisins á Hofsósi. Samkvæmt fundargerð nefndarinnar kynnti N1 bréfleg að gert hefði verið samkomulag við verkfræðistofu um að hefja forrannsókn á útbreiðslu og umfangi mengunar.
Starfsleyfi bensínstöðvarinnar á Hofsósi rann út 1. janúar sl. en samþykkti nefndin að veita bráðabirgðastarfsleyfi til 1. júní nk. þannig að fyrirtækinu gefist lokafrestur til að fara í nauðsynlegar endurbætur. Nýtt starfsleyfi verður gefið út þegar endurbætt stöð uppfyllir kröfur um olíuskiljur.
„Það er staðfest að mikill leki hefur átt sér stað á bensíni úr tanki sem hefur verið tekinn úr notkun. Nágrannar hafa kvartað undan miklum óþægindum vegna lyktar sem þeir telja að sé bensínlykt en enn á eftir að staðfesta uppruna lyktar með rannsóknarniðurstöðum á sýnum sem tekin hafa verið. Málið er alvarlegt enda hefur orðið mengunarslys, sem hefði verið hægt að komast hjá, ef fylgt hefði verið ákvæðum í eldri útgáfu reglugerðar sem gilti um aldur tanka á bensínstöðvum. Reglugerðinni var breytt árið 2017 sem leiddi af sér að nú er hægt að framlengja notkun á gömlum tönkum ef þykktarmæling sýndi fram á að þeir væru í góðu lagi. Tankarnir eru 31 árs. Þetta mál sýnir að umhverfisráðherra þarf að taka til skoðunar að færa ákvæði um aldur tanka í fyrra horf,“ segir í fundargerð HNV frá því í gær.