Sterkur sigur toppliðs Kormáks/Hvatar á einu af toppliðum B-riðils

Frá leik Kormáks/Hvatar og SR. MYND AF FB
Frá leik Kormáks/Hvatar og SR. MYND AF FB

Keppni í B-riðli 4. deildar í knattspyrnu er æsispennandi en rétt áður en COVID-frestun skall á í síðustu viku þá áttust lið Kormáks/Hvatar og SR við á Blönduósvelli. Fyrir leikinn voru Húnvetningarnir í efsta sæti riðilsins með 13 stig en SR, sem er b-lið Þróttara í Reykjavík, var í öðru sæti með 12 stig. Það var því mikið undir en heimamenn poppuðu upp með stigin þrjú eftir hörkuleik.

Hilmar Kára kom Kormáki/Hvöt yfir strax á 3. mínútu en gestirnir jöfnuðu tíu mínútum síðar. Ingvi Ingvars fyrirliði K/H kom sínum mönnum í forystu á ný með marki Jóhannesar Sólmundarsonar á 36. mínútu og staðan 2-1 í hálfleik. Oliver Torres kom heimamönnum í tveggja marka forystu rétt fyrir miðjan síðari hálfleik en Jón Guðbergsson hleypti spennu í leikinn þegar hann minnkaði muninn í eitt mark á 70. mínútu. Hilmar Kára rak smiðshöggið á sigur Húnvetninga þegar hann gerði annað mark sitt í leiknum á 80. mínútu og lokatölur því 4-2.

Nú þegar keppni í B-riðli er rúmlega hálfnuð lítur út fyrir að það verði Kormákur/Hvöt, KFR og SR sem berjist um sæti í úrslitakeppninni en Björninn og Stokkseyri eru þó einnig í séns. Húnvetningar tróna á toppnum með 16 stig eftir sjö leiki, KFR er með 14 stig og lið SR 12 stig en á leik til góða.

Ekki er alveg ljóst hvert framhaldið verður þar sem þjóðfélagið er á pásu sökum COVID-faraldursins en næstu tveir leikir Kormáks/Hvatar eiga að vera á heimavelli en þrír síðustu leikirnir á útivelli. Samkvæmt heimasíðu KSÍ hefur leik K/H og Stokkseyrar sem fara átti fram nk. laugardag ekki enn verið frestað. Að sögn Bjarka Más þjálfara þá eru leikmenn K/H til í slaginn. Hann á þó síður von á því að leikurinn fari fram þar sem æfingar voru bannaðar til 13. ágúst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir