Stéttarfélagið Samstaða hvetur heilbrigðisráðherra til að leita samráðs við heimamenn
Stjórn og trúnaðarráð Stéttarfélagsins Samstöðu samþykkti á fundi sínum í gær ályktun þar sem harðlega er mótmælt þeirri grímulausu aðför að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni sem kynnt er í frumvarpi til fjárlaga næsta árs og krefst þess að horfið verði frá þeirri stefnu sem þar er kynnt.
Það er stórlega ámælisvert að leggja einhliða og án samráðs fram slíkar hugmyndir sem setja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni aftur um áratugi og rústa það góða starf sem hefur verið byggt upp á stofnunum sem hafa veitt íbúum á sínu svæði góða þjónustu og veitt þeim öryggi og tryggt aðgengi að heilbrigðis- og sjúkrahúsþjónustu . Þetta er algjört brot á þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa sagst styðja sem er að styrkja landsbyggðina og flytja þangað verkefni.
Heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi vestra eru illa leiknar í þessum niðurskurði og hefur Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi fengið á sig mikinn niðurskurð þriðja árið í röð. Það mun bitna hart á þjónustu við sjúklinga og þýða mikla fækkun starfa við stofnunina. Stéttarfélagið Samstaða skorar á Húnvetninga að láta til sín heyra og mótmæla þessari aðför að Heilbrigðisstofuninni á Blönduósi og þeirri þjónustu sem hún hefur veitt um áratugaskeið
Stéttarfélagið Samstaða hvetur heilbrigðisráðherra til að leita samráðs við heimamenn um hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana en dragi til baka hugmyndir um stórfelldan niðurskurð sem munu hafa uggvænlegar afleiðingar fyrir byggðarlögin með tilheyrandi fólksflótta og lömun samfélagsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.