Stofnuðu vefsíðu sem stuðlar að heiðarlegum viðskiptum
Tveir ungir Skagfirðingar, Þorsteinn H. Gestsson frá Tröð, og Guðmundur Kárason á Sauðárkróki opnuðu nýverið útboðsvefinn nagli.is sem er neytendamiðaður vefur, sem á að skapar umgjörð fyrir verktaka og neytendur til að stunda heiðarleg viðskipti. Markmið Naglans er að spara báðum aðilum tíma og pening, stuðla að gegnsærri samkeppni og minnka umstang við framkvæmdir.
Samkvæmt þeim Þorsteini og Guðmundi virkar þetta þannig að neytandi sendir lýsingu á verki sem hann vill láta vinna, t.d. lagfæringu á húsi eða íbúð. Iðnaðarmenn senda tilboð. Neytandinn fær upplýsingar um þá sem bjóða þjónustu; menntun, réttindi og kennitölu.
Náist samningar áskilur Naglinn sér umboðslaun frá verktaka sem fara lækkandi eftir stærð verks. Umsagna- og einkunnakerfi vefsins tryggir neytendum nauðsynlegar upplýsingar um hvernig þeir verktakar sem bjóða í verkið hafa staðið sig hingað til. Við verklok gefa bæði kaupandi og seljandi hvor öðrum einkunn, frá núll og upp í fimm nagla. Reynslan hefur sýnt að eftirfylgni vantar á verktakamarkað og fólk treystir mikið á umsagnir frá jafningjum sínum, öðrum neytendum.
Við þróun síðunnar var haft samráð við Samtök iðnaðarins, Neytendasamtökin, Húseigendafélagið og Tækniskólann til þess að tryggja sem besta og sanngjarnasta þjónustu fyrir alla aðila.
Fyrir þá sem ekki eru búnir að glöggva sig á drengjunum þá er Þorsteinn sonur Gests Þorsteinssonar og Sóleyjar Skarphéðinsdóttur frá Tröð, og Guðmundur er sonur Kára Sveinssonar og Margrétar Guðmundsdóttur, bókhaldara á Sauðárkróki.