Stólarnir brenndu sig enn og aftur á Loga

Njarðvíkingar kampakátir eftir sigurkörfu Loga. MYND: HJALTI ÁRNA
Njarðvíkingar kampakátir eftir sigurkörfu Loga. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var boðið upp á háspennu í Síkinu í gær þegar Njarðvíkingar heimsóttu Tindastólsmenn í 3. umferð Dominos-deildarinnar. Því miður þá héldu heimamenn áfram að vera ósannfærandi þrátt fyrir að hafa á að skipa flottum leikmönnum sem virðast enn ekki hafa áttað sig á að það þarf að spila varnarleik til að vinna leiki. Framlengt var í Síkinu og svo virtist sem Antanas Udras hefði tryggt Stólunum sigur þegar tæpar tvær sekúndur lifðu leiks. Njarðvíkingar eru hins vegar með Loga Gunnars í sínu liði og þá er leikurinn ekkert búinn fyrr en lokaflautið gellur. Hann setti þrist í andlitið á heimamönnum um leið og leiktíminn rann út. Lokatölur 107-108.

Njarðvíkingar voru frískari framan af leik og voru lengstum með um sex stiga forystu. Stólarnir náðu þó góðum kafla upp úr miðjum öðrum leikhluta og snéru leiknum sér í hag. Staðan var 21-25 eftir fyrsta leikhluta en eftir 15 míinútna leik stóð 31-37 en þá náðu heimamenn 16-2 kafla og komust í 47-39. Sjö stiga munur var í leikhléi, 49-42.

Það tók gestina rétt rúmar tvær mínútur að komast yfir á ný, 51-52, og í raun var allt hnífjafnt út þriðja leikhlutann og staðan að honum loknum 70-71. Antonio Hester, fyrrum leikmaður Tindastóls, kom Njarðvíkingum í 70-76 og gestirnir voru ákveðnari framan af fjórða leikhluta. Þristur frá Viðari og fimm stig frá Tomsick komu Tindastólsmönnum yfir um miðjan leikhlutann. Njarðvíkingar með Jón Arnór Sverrisson sjóðheitan gáfu þó ekkert eftir og komust yfir á ný. Síðustu körfuna í venjulegum leiktíma gerði síðan Tomsick, setti niður eitt víti til að jafna leikinn en klikkaði á því síðara, þegar 50 sekúndur voru eftir. Hvorugu liðinu tókst að setja upp almennilega sókn á lokamínútunni, staðan 92-92 og því framlengt.

Í framlengingunni voru gestirnir skrefi á undan og Jón Arnór kom þeim fjórum stigum yfir, 97-101, með þristi. Stólarnir jöfnuðu en Njarðvíkingar, sem höfðu misst sína hæstu menn af velli með fimm villur, gáfu ekkert eftir. Jón Arnór, Veigar Páll og Logi gerðu körfur en Shawn Glover jafnaði, 105-105, þegar rúm mínúta var eftir. Þegar 1,7 sekúnda var eftir skoraði Udras fyrir Tindastól eftir stoðsendingu frá Glover. Gestirnir tóku leikhlé og mættu til leiks með kerfi sem gekk fullkomnlega upp. Logi losaði sig frá Udras sem Baldur Örn náði að tefja fyrir, það var sekúndubrotið sem Logi þurfti til að grípa boltann og klára leikinn.

Stólarnir tóku fleiri skot, hirtu miklu fleiri fráköst og áttu fleiri stoðsendingar. Þeir töpuðu hins vegar fleiri boltum og skoruðu einu stigi minna en gestirnir úr Njarðvík.

Tindastóll hefur nú spilað tvo leiki í Síkinu í vetur og tapað báðum naumlega. Hvort um er að ræða stuðningsmannasöknuð er ekki gott að segja en ljóst er að varnarleikurinn er ekki til staðar og jafnvægið innan liðsins ekki í lagi. Pétur og Brodnik voru til dæmis aðeins með þrjú stig hvor í gær. Shawn Glover var stigahæstur með 39 stig og er öflugur leikmaður. Það vita allir hvað Tomsick getur en hann hitti úr níu af 26 skotum, gerði 27 stig. Þrír leikmenn Tindastóls gerðu meira en tíu stig en fimm í liði Njarðvíkur þar sem Jón Arnór og Mario Matasovic voru stigahæstir með 25 stig.

Næsti leikur er hér heima gegn Val nk. fimmtudagskvöld en síðan fylgja þrír útileikir gegn Hetti, Þór Akureyri og Þór Þorlákshöfn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir