Stólarnir fengu á sig jöfnunarmark í uppbótartíma

Dom Furness brosmildur í leik gegn Uppsveitum í fyrstu umferð. Hann gerði síðara mark Stólanna í gær. MYND: ÓAB
Dom Furness brosmildur í leik gegn Uppsveitum í fyrstu umferð. Hann gerði síðara mark Stólanna í gær. MYND: ÓAB

Lið Tindastól lék þriðja leik sinn í 4. deildinni í knattspyrnu í gærkvöldi en þá tóku strákarnir á móti liði Skallagríms úr Borgarnesi. Gestirnir höfðu tapað fyrstu tveimur leikjum sínum en Stólarnir unnið þann fyrsta en lutu síðan í gras gegn Vængjum Júpíters sem hafa byrjað móti af krafti. Stólarnir voru 2-1 yfir í hléi en mikill vindur hafði áhrif á leikinn í síðari hálfleik og uppskáru Skallagrímsmenn jöfnunarmark í uppbótartíma. Lokatölur 2-2.

Það var Addi Ólafs sem kom Stólunum yfir eftir hálftímaleik en Maximiliano Ciarniello jafnaði metin tíu mínútum síðar. Spilandi þjálfari Tindastóls, Dom Furness, kom sínu liði yfir á 43. mínútu og þannig stóð sem fyrr segir í hálfleik. Vindurinn tók völdin í síðari hálfleik og áttu Stólar í mesta basli með koma boltanum upp völlinn. Jöfnunarmarkið gerði síðan Steindór Gunnarsson á 91. mínútu og liðin skiptu því stigunum á milli sín.

Úrslitin hljóta að teljast töluverð vonbrigði fyrir Stólana en líkt og í fyrra gengur brösuglega að koma boltanum í mark andstæðinganna þrátt fyrir að spilið úti á velli sé oftar en ekki með ágætum. Leit hlýtur að standa yfir að markaskorara en þeir geta nú verið vandfundnir og ekki víst að þeir smelli í púslið sem Dom þarf að reyna að setja saman.

Stólarnir eru nú í sjöunda sæti 4. deildar með fjögur stig en á toppnum tróna Vængir Júpíters með fullt hús stiga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir