Stólarnir komnir í tryllta toppbaráttu

Sverrir fyrirliði horfir að því er virðist undrandi á svekktan markaskorara Skallagríms sem setti boltann í eigið mark. MYND: ÓAB
Sverrir fyrirliði horfir að því er virðist undrandi á svekktan markaskorara Skallagríms sem setti boltann í eigið mark. MYND: ÓAB

Tindastóll og Skallagrímur mættust öðru sinni á fimm dögum í gærkvöldi en þá var loks spilaður margfrestaði leikurinn sem fara átti fram í byrjun tímabils. Leikurinn skipti bæði lið miklu; Tindastólsmenn vildu blanda sér almennilega í toppslaginn en gestirnir koma sér upp af botninum. Það voru Stólarnir sem urðu ofan á í leiknum án þess að eiga neinn stórleik, voru klárlega sterkari aðilinn og unnu nokkuð öruggan 2-0 sigur.

Fyrsta markið kom með næstsíðasta sparki fyrri hálfleiks en þá fengu Stólarnir aukaspyrnu á hægri kanti ofarlega á vellinum. Sendingin fyrir markið var góð og Sverrir fyrirliði keyrði inn á teiginn, skutlaði sér glæsilega með höfuðið á undan sér fullkomnlega láréttur í loftinu en hitti ekki boltann. Varnarmaður Skallagríms, Hrafnkell Váll Valgarðsson, fylgdi Sverri eftir, þó ekki jafn tignarlega, fékk boltann í fót og sendi hann óverjandi í eigið mark. Skallagrímsmenn tóku miðju og dómarinn flautaði til hálfleiks.

Addi Ólafs tvöfaldaði forystu Stólanna á 52. mínútu eftir snarpa sókn. Dominick og Sverrir Hrafn voru hvíldir þegar rúmar 20 mínútur voru til leiksloka og eftir það reyndu gestirnir hvað þeir gátu til að minnka muninn en nokkuð skorti upp á gæðin fremst á vellinum. Þá varði Nikola glæsilega í eitt tvö skipti. Stólarnir fengu nokkra sénsa á lokakaflanum þegar Skallarnir færðu sig framar en fleiri urðu mörkin ekki.

Fimm heimaleikir framundan

Lið Tindastóls er nú í þriðja sæti 4. deildar þegar öll liðin hafa leikið tíu leiki af átján. Ýmir og Hamar hafa verið í bílstjórasæti deildarinnar meiripart sumars en þau töpuðu bæði leikjum sínum um helgina. Ýmir er þó sem fyrr í efsta sæti með 22 stig, Hamar er með 20 stig og lið Tindastóls 19. Nú í síðari umferðinni eiga Stólarnir heimaleiki gegn öllum liðunum í efri hluta deildarinnar og staðan því álitleg. Reyndar er það þannig að næstu fimm leikir Stólanna verða spilaðir á Króknum.

Það er þó ljóst að Stólarnir þurfa að skerpa á sóknarleiknum ef ekki á illa að fara og krossa fingur í von um að lykilmenn lendi ekki í meiðslum. Næsti leikur Tindastóls er á laugardaginn en þá koma Eyjamenn í KFS í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir