Stólastúlkur fá Hauka í heimsókn í dag

Samfögnuður á Sauðárkróksvelli. MYND: ÓAB
Samfögnuður á Sauðárkróksvelli. MYND: ÓAB

Í dag, sunnudaginn 27. september, taka Stólastúlkur á móti liði Hauka úr Hafnarfirði á Kaupfélagsteppinu á Króknum.  Leikurinn hefst kl. 16:00 og skiptir bæði lið máli. Haukastúlkur eiga enn möguleika (afar veikan) á að ná liði Keflavíkur sem er í öðru sæti Lengjudeildarinnar en lið Tindastóls, sem hefur þegar tryggt sér sæti í efstu deild, stefnir á að vinna Lengjudeildina og hefur því engan áhuga á að tapa.

Haukar eru einu liðið sem hefur borið sigurorð af liði Tindastóls í deildinni í sumar og Stólastúlkur hafa því harma að hefna. Það er því um að gera að fjölmenna á völlinn og hvetja stelpurnar til sigurs og óska þeim um leið til hamingju með sætið í efstu deild. 

Einhverjir velta kannski fyrir sér hvort sveitarfélagið ætli ekki að standa fyrir húllumhæi í tilefni af frábærum árangri Stólastúlkna. Samkvæmt heimildum Feykis þá er Covid-19 aðeins að flækja málin en fulltrúar sveitarfélagsins ku vera í sambandi við forráðamenn Tindastóls um skipulag fögnuðar. Stefnt er að fögnuði í kringum síðasta leik tímabilsins en Stólastúlkur mæta liði Völsungs í flóðljósunum á Króknum föstudagskvöldið 9. október.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir