Stólastúlkur Hömrum slegnar

Vigdís Edda fórnar höndum undir lok leiks í gær. Hún gerði glæsilegt mark í leiknum en það dugði ekki til. MYND: ÓAB
Vigdís Edda fórnar höndum undir lok leiks í gær. Hún gerði glæsilegt mark í leiknum en það dugði ekki til. MYND: ÓAB

Stólastúlkur fóru illa að ráði sínu í gærkvöldi þegar þær spiluðu við lið Hamranna frá Akureyri í fallbaráttu 1. deildar kvenna. Þrátt fyrir að vera sterkari aðilinn megnið af leiknum gáfu stelpurnar tvö ódýr mörk en skoruðu sjálfar aðeins eitt mark og 1-2 tap staðreynd. Það er ljóst að hafi verið brekka fyrir leik þá er það Brattabrekka núna.

Lið Tindastóls lék undan nettum norðanvindi í fyrri hálfleik og sótti talsvert. Gæðin í leik liðsins voru þó ekki nógu mikil, stelpurnar voru óþolinmóðar og það var eins og það ætti að gera mörg mörk í hverri sókn. Færin létu dálítið á sér standa en það var þó aðallega fyrir stórleik Helenu Jónsdóttur í marki Hamranna að Tindastólsstelpunum tókst ekki að skora. Gestirnir sköpuðu lítið fram á við en náðu dýrmætu marki á 44. mínútu. Þær fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Tindastóls og áttu hörkuskot að marki sem Ana Lucia náði að verja í þverslá. Inga Rakel Ísaksdóttir var grimmust í boltann og náði að skófla honum í markið. Staðan 0-1 í hálfleik.

Stólastúlkur komu einbeittar til leiks í síðari hálfleik og eftir aðeins tveggja mínútna leik hafði Vigdís Edda Friðriksdóttir jafnað leikinn. Fékk boltann fyrir utan teig, lék með hann framhjá varnarmönnum Hamranna og átti svo frábært skot í bláhornið hjá Helenu. Næstu mínútur pressaði lið Tindastóls og var mun sterkari aðilinn og spilaði nú betur en mörkin létu á sér standa. Um miðjan síðari hálfleik var eins og of mikill kraftur hefði farið í þennan góða kafla því skyndilega virkuðu stelpurnar þreyttar og lið Hamranna náði yfirhöndinni þar sem þær unnu annan boltann hvað eftir annað og þvinguðu fram nokkrar hættulegar hornspyrnur. Sigurmark þeirra kom síðan á 77. mínútu þegar þær áttu sendingu inn fyrir vörn Tindastóls. Ana Lucia virtist hafa allt í hendi sér en hún hikaði í markinu og þegar hún loks ákvað að fara í boltann vildi ekki betur til en svo að hún dúndraði í næsta mótherja og boltinn skoppaði í átt að marki Tindastóls. Rakel Sjöfn Stefánsdóttir var fyrst í boltann og skoraði af öryggi. Stólastúlkur reyndu hvað þær gátu til að jafna en náðu ekki að skapa sér alvöru færi. Helena í marki Hamranna var öryggið uppmálað í teignum og besti maður leiksins. Tap Tindastóls því staðreynd.

Augljóst var í gær að Stólastúlkur söknuðu Evu Banton og Ólínu sem voru báðar vel spilandi, yfirvegaðar og sterkar. Lið Tindastóls er hinsvegar að styrkja sig og á næstu dögum bætast tveir erlendir leikmenn í hópinn; Lavinia Nkomo og Madeiline Keane, eftir því sem Feykir kemst næst, og ættu þær að vera klárar í síðustu fimm umferðirnar í 1. deildinni.

Leikurinn í gærkvöldi mátti í raun ekki tapast en fyrir leikinn voru Hamrarnir þremur stigum á undan Stólunum í áttunda sæti deildarinnar. Nú munar aftur á móti sex stigum og ljóst að Stólastúlkur verða að vinna megnið af leikjunum sem eftir eru ætli þær að halda sér í deildinni.

En enn er von. Áfram Tindastóll!

Fleiri fréttir