Stólastúlkur komnar í átta liða úrslitin í Mjólkinni

Áfram Tindastóll - liðsmynd frá í fyrra. MYND: PALLI FRIÐRIKS
Áfram Tindastóll - liðsmynd frá í fyrra. MYND: PALLI FRIÐRIKS

Í dag fór fram síðasti leikurinn í 16 liða úrslitum í Mjólkurbikar kvenna. Þá mættust lið Augnabliks og Tindastóls innanhúss í Fífu þeirra Kópavogsbúa. Það er skemmst frá því að segja að stelpurnar okkar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu 1-2 og eru því komnar í átta liða úrslit í Mjólkurbikarnum sem er frábær árangur. Tvö lið úr Inkasso-deildinni eru í 8 liða úrslitunum, lið ÍA, en annars eru það aðeins Pepsi-deildar lið sem verða í pottinum góða þegar dregið verður á morgun.

Lið Augnabliks fór betur af stað í leiknum en Murielle og Vigdís voru hættulegar í sókn Tindastóls. Vigdís Edda kom liði Tindastóls yfir á 25. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf. Bæði lið fengu ágæt færi fram að hléi, Murr slapp m.a. í gegnum vörn Augnabliks rétt fyrir hlé en brást bogalistin, en staðan 0-1 í hálfleik.

Kópavogsstúlkurnar komu ákveðnar til leiks í síðari hálfleik og pressuðu talsvert. Lið Tindastóls, með Bryndísi Rut fremsta í flokki, varðist vel og Lauren átti góðan leik í markinu. Það kom þó að því að Augna-Blikarnir jöfnuðu en þá fékk Rebekka Ágústsdóttir góða sendingu á fjærstöng og skoraði af öryggi. Strax í kjölfarið vildu heimastúlkur fá dæmda vítaspyrnu en dómarinn taldi ekki um brot að ræða. Það var síðan á 85. mínútu sem Bryndís Rut frá Brautarholti gerði sigurmark leiksins með frábærum skalla eftir hornspyrnu. Heimastúlkur reyndu að jafna en Stólastúlkur voru ólseigar og héldu út lokamínúturnar og fögnuðu sætum sigri í leikslok.

Í skýrslu leiksins á Fótbolti.net segir að bestar í leiknum hafi verið þær stöllur Bryndís Rut, sem var örugg í hafsentinum og gerði sigurmarkið, og Krista Sól, sem var mjög dugleg bæði í vörn og sókn. Lið Augnabliks átti fleiri færi í leiknum en sóknarmönnum liðsins tókst aðeins að skora eitt mark.

Sem fyrr segir verður dregið í 8 liða úrslitin á morgun og liðin í pottinum eru Valur, Þór/KA, ÍA, Selfoss, KR, HK/Víkingur, Fylkir og Tindastóll. Leikið verður síðustu helgina í júni og nú er bara að krossa fingur og vona að Stólastúlkur fái heimaleik í næstu umferð – þá verður gaman!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir