Störfum skilað

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tekið þá góðu ákvörðun að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Það hefur sýnt sig að flutningur opinberra stofnana og starfa út á land skilar miklu fyrir það samfélag sem tekur við stofnuninni og stofnanirnar dafna vel.

Dæmi um vel heppnaða flutninga eru Landmælingar á Akranes, Byggðastofnun og hluti Íbúðalánasjóðs á Sauðárkrók, Matvælastofnun á Selfoss og nýjar stofnanir má nefna Fæðingarorlofssjóð á Hvammstanga og Miðstöð sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi. Ýmsir í höfuðborginni finna nú ákvörðun ráðherrans allt til foráttu. Talsmenn stéttarfélaga steyta hnefann m.a. BHM sem mótmælir harðlega.

Stöð 2 kallar til dyggan stuðningsmann Samfylkingarinnar, stjórnsýslufræðing, sem m.a. sat í umbótanefnd flokksins. Sá stjórnarandstæðingur kallar ákvörðun ráðherra skemmdarverk. Það er áberandi andúð hennar á ákvörðunin en köllum hlutina réttum nöfnum. Sá sem hefur setið í ábyrgðarstöðum fyrir Samfylkinguna er fremur óheppilegur álitsgjafi til að gefa faglegt álit á pólitískum andstæðingi sínum sérstaklega ef hann titlar sig stjórnsýslufræðing!

Hvar hafa þessir varðmenn borgarstarfanna og álitsgjafar verið þegar við sem búum útiá landi bendum á þá gríðarlegu starfa og fólksflutninga sem átt hafa sér stað frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Hvar voru þessir varðmenn þegar tugir starfa og stöðugilda hafa verið lögð niður eða flutt frá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki? Störf á vegum Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlitsins, Nýsköpunarmiðstöðvar, veiðimálastofnunar, vegagerðarinnar os.frv. os.frv.

Hvar var þá BHM!

Er þá ekki búið að vinna skemmdarverk á landsbyggðinni, líkt og Samfylkingarráðgjafinn lýsti því.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er einfaldlega að byrja að skila því sem burtu var tekið.

Landsbyggðarfólk afhendir tvær af hverjum þremur krónum sem það framleiðir til höfuðborgarinnar þar sem þær krónur eru m.a. nýttar til að ráða opinbera starfsmenn til vinnu. Ein króna af þessum þremur verður eftir úti landi.

Fleiri störfum þarf að skila.


Gunnar Bragi Sveinsson

Utanríkisráðherra og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir