Stórhóll skákar Sporði í stórlambakeppni Feykis
Þau gerast væn lömbin í Húnaþingi vestra en við sögðum frá ein slíku lambi fyrir stuttu sem fæddist á bænum Sporði. Nágrannarnir á Stórhóli gátu ekki unað nágrönnum sínum að eiga stærra lamb en þau, þannig að á laugardaginn kom í heiminn hjá þeim einlembingsgimbur sem vó 8,4 kg.
Maríanna Ragnarsdóttir bóndi á Stórhóli segir að Gimbrin hafi verið vigtuð með baðvigtinni hennar Oddnýjar í Sporði eins og þeirra lamb og ekki lýgur hún. Ær og lambi heilsast vel.
-Það væri svo ekki verra ef við myndum líka fá ferð til Prag eins og heiðurshjónin í Sporði, segir Maríanna en svo heppilega vildi til að Þorbjörn Ágústsson í Sporði var einmitt dreginn út í áskrifendaleik Feykis fyrir skömmu.