Stytting vinnuvikunnar hjá sveitarfélaginu Skagafirði

Íslendingar eru þekktir fyrir langa vinnudaga og um leið langan vistunartíma barna. Við Skagfirðingar erum þar engin undantekning. Löngum hefur það verið talin dyggð að vera vinnusamur. En raunin er sú að álagstengd veikindi geta fylgt mikilli vinnu. Vinnutengt stress getur leitt til verri svefns sem svo getur orsakað verri samskipti á vinnustöðum. Tími fyrir fjölskylduna, tómstundir eða hreyfingu verður minni á löngum vinnudögum og getur það leitt til þunglyndis og kvíða.

Nágrannalönd okkar hafa í auknum mæli stytt vinnuvikuna og sýna rannsóknir að ávinningurinn er umtalsverður. Stytt vinnuvika hefur jákvæð áhrif á lífsgæði, hagsæld, atvinnutækifæri og jöfnuð. Sveitarfélagið Skagafjörður getur státað sig af því, að níundi klukkutíminn í leikskólavistun á degi hverjum er ódýrastur á landsvísu. Slík útfærsla getur varla talist fjölskylduvæn.

Rannsóknir sýna að á vinnustöðum sem hafa stytt vinnuvikuna telja starfsmenn sig afkasta meiru í vinnunni en finna þó um leið minna fyrir álagi og stressi. Að auki fækkar skammtíma veikindadögum og líkur á kulnun í starfi minnkar. Styttri vinnuvika skilar sér einnig í fleiri gæðastundum fjölskyldunnar.

Eftir að fyrirtækið Hugsmiðjan stytti vinnudag starfsmanna sinna fyrir tveimur árum síðan, hefur framleiðni þar aukist um 23%. Um leið fækkaði veikindadögum um 44% og ánægja starfsmanna jókst um 100%. Færri vinnutímar gáfu starfsfólki aukið rými fyrir áhugamál og hreyfingu sem hafði góð áhrif á líðan og heilsu. Ávinningurinn er því greinilega mikill.

Erfiðlega hefur gengið að manna leikskóla hér í sveitarfélaginu með leikskólakennurum. Mannabreytingar eru því tíðar á vinnustöðum þar sem stöðugleiki skiptir börnin okkar máli. Laun leikskólakennara eru skammarlega lág miðað við ábyrgð og vinnuálag. Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er ákveðin launauppbót og það ásamt sveigjanleika vinnutímans gerir vinnustaðina eftirsóknarverðari.

Vinstri grænir og óháðir leggja því til að sveitarfélagið Skagafjörður stefni á styttingu vinnuvikunnar á vinnustöðum sínum og byrji á leikskólum Skagafjarðar sem tilraunaverkefni. Vinnuvika starfsmanna verði stytt í 36 tíma á viku, án þess þó að skerða þjónustu á nokkurn hátt. Áhersla verður lögð á sveigjanleika starfsmanna, að komið verði á móts við hvern og einn eins og mögulegt er og þannig fundnar leiðir sem allir geta verið sáttir við. 

Ég hef þegar viðrað þessa hugmynd við leikskólastjórana þrjá í firðinum, en ekki væri farið út í verkefni af þessu tagi án þess að ræða við þá sem málin varða. Viðbrögð þeirra allra voru mjög jákvæð, þeir segja að með vilja sé þetta leysanlegt á farsælan hátt og ávinningurinn algjörlega þess virði.

Gefist þetta verkefni vel, þá gætu aðrir vinnustaðir sveitarfélagsins fylgt í kjölfarið með styttri vinnuviku.

VÓ - fyrir fólkið í firðinum

Álfhildur Leifsdóttir
Höfundur skipar 2. sæti á lista VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir