Sumarið skellti sér í skyndiheimsókn

Barmafull Svartá/Húseyjarkvísl seinni partinn í dag. Reykir til hægri. MYND: ÓAB
Barmafull Svartá/Húseyjarkvísl seinni partinn í dag. Reykir til hægri. MYND: ÓAB

Það skall á með sumri í dag hér norðanlands og fólk tók blíðunni fagnandi. Hitinn daðraði við 20 gráðurnar og vinsamlegustu hitamælar hafa sennilega sýnt miklu hærri tölur í skjólsælum skörðum og görðum. Sjá mátti mennsk endurskinsmerki fækka fötum og ár ösluðu til sjávar moldarbrúnar og mikilúðugar. Íslenska sumarið er svo meiriháttar þegar það gefur sér tíma til að kíkja í heimsókn.

Blaðamaður kíkti í Varmahlíð og á Steinsstaði í tilefni blíðunnar og fór einn rúnt um Krókinn fyrst. Óvenjumikil umferð gangandi var í bænum og á körfuboltavellinum við Árskóla voru margir að sýna takta og sumir búnir að rífa sig úr að ofan.

Í Olís í Varmahlíð mátti heyra talað tungum sem ekki voru allar íslenskrar ættar. Helga Bjarna var farin að láta hendur standa fram úr ermum í garðinum sínum og Kolli sló reitinn neðan Fagrahvols. Hann tók sláttuvélina til kostanna í skærrauðri Manchester United treyju og brosti út að eyrum.

Frammi í Lýtó var talsvert um gangandi vegfarendur og fólk á hestbaki en áin rann bakkafull og brúnleit fram hjá Steinsstöðum.

Reiknað er með stilltu og nokkuð hlýju veðri á morgun en það kólnar heldur upp úr helginni og alls konar veður fram eftir vikunni. Afar íslenskt...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir