Sundlaugin á Sauðárkróki á áætlun
Fyrri verkhluti framkvæmda við Sundlaugina á Sauðárkróki fer í opið útboð á allra næstu dögum en þar er gert ráð fyrir að gamla sundlaugin verði öll tekin í gegn, anddyri, lyfta búningsklefar o.fl. Að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, formanns byggingarnefndar sundlaugarinnar er markmiðið að sundlaugin verði til fyrirmyndar varðandi aðgengi fyrir alla. Framkvæmdir eiga að hefjast í haust eins og stefnt hefur verið að og gert er ráð fyrir að þeim ljúki seinni part ársins 2018. Seinni verkhluti verður unninn í framhaldinu þar sem gert er ráð fyrir viðbót sunnan við sundlaugina með rennibrautum, vaðlaug fyrir börn og heitum pottum.
Á fundi byggingarnefndar Sundlaugar Sauðárkróks þann 22. júní sl. voru lokuð útboð í verkið til umfjöllunar. Aðeins barst eitt tilboð og var það 33% yfir kostnaðaráætlun og var því hafnað. Jafnframt var lagt til að verkið verði boðið út aftur í opnu útboði með breyttum forsendum.