Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur óviðunandi að tugþúsundir manna verði innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman
Líkt og sveitarstjórn Húnaþing vestra er sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar óánægð með þá stöðu sem upp kom í Skagafirði, og víðar á landinu, í kjölfar óveðurslægðar sem gekk yfir landið fyrr í vikunni. „Það er óviðunandi á árinu 2019 að í kjölfar óveðurs skuli tugþúsundir manna verða innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman, auk þess að njóta bágborinna fjarskipta og upplýsinga um hvaða endurbótum og lagfæringum liði,“ segir í bókun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar í gær.
Bókunin er eftirfarandi:
„Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp hefur komið í Skagafirði og víðar á landinu í kjölfar óveðurslægðar sem gekk yfir landið fyrr í vikunni. Það er óviðunandi á árinu 2019 að í kjölfar óveðurs skuli tugþúsundir manna verða innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman, auk þess að njóta bágborinna fjarskipta og upplýsinga um hvaða endurbótum og lagfæringum liði. Ekki er boðlegt að stefna hundruðum manna út í mannskaðaveður, með tilheyrandi hættu, til að ráðast í lagfæringar á innviðum sem hefði þegar átt að vera búið að byggja upp með því öryggi sem tilheyrir 21. öldinni.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að fara rækilega ofan í atburði liðinna daga og byggja upp nauðsynlegar áætlanir við hamförum sem þessum. Jafnframt er mikilvægt að ráðast þurfi í við- og endurbætur á Sauðárkrókshöfn svo höfnin geti staðið áhlaup sem þessi. Þá er nauðsynlegt að ráðast án tafar í stórfellt átak uppbyggingar raforku- og fjarskiptainnviða á Norðurlandi og í fleiri landshlutum sem nái til allra sveita og bæja landsins. Það ástand sem enn varir í mörgum byggðarlögum landsins er óboðlegt með öllu."
Nú að morgni föstudagsins 13. desember hefur ekki enn tekist að gera við allar bilanir á Skagalínu og er hluti notenda enn rafmagnslaus. Unnið er að viðgerð. Á heimasíðu Rarik má gera ráð fyrir truflunum hjá þeim notendum sem komnir eru með rafmagn þar til viðgerð lýkur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.