Sveitarstjórn þakkar viðbragðsaðilum

Frá vettvangi rútuslyssins við Öxl. Mynd: Facebooksíðan Brunavarnir Austur-Húnvetninga.
Frá vettvangi rútuslyssins við Öxl. Mynd: Facebooksíðan Brunavarnir Austur-Húnvetninga.

Á fundi sveitarstjórnar Blönduósbæjar sem haldinn var í gær, fimmtudaginn 16. janúar, voru lagðar fram og samþykktar tvær bókanir undir liðnum innviðir samfélagsins. 

Með fyrri bókuninni vill sveitarstjórn koma á framfæri sérstökum þökkum til allra viðbragðsaðila sem komu að rútuslysinu við bæinn Öxl, þann 10. janúar síðastliðinn, við mjög erfiðar aðstæður. Einnig er öllum bæjarbúum, sem og öðrum sjálfboðaliðum sem að málumkomu með beinum eða óbeinum hætti, þakkað fyrir ómetanlegt framlag sitt við það að taka á móti allt að 90 einstaklingum sem lentu í slysinu. „Það er gott að búa í samfélagi sem stendur saman þegar á reynir, gengur í það sem gera þarf til þess að hjálpa þeim sem þess þurfa,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Einnig ítrekar sveitarstjórn af þessu tilefni þá sjálfsögðu kröfu að Blönduósflugvelli verði haldið við sem sjúkraflugvelli vegna mikilvægrar legu hans við þjóðveg nr 1. „Flugvöllurinn verður að vera búinn þeim aðbúnaði sem nauðsynlegur er til að hann geti þjónað íbúum svæðisins og þeim fjölmörgu vegfarendum sem fara um landshlutann,“ segir í bókuninni.

Í síðari bókun sveitarstjórnar er tekið heilshugar undir frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annara framkvæmda. Skorar sveitarstjórn á önnur sveitarfélög og alþingismenn alla að beita sér fyrir því að frumvarpið verði sem fyrst að lögum, þar sem það mun lyfta grettistaki í uppbyggingu innviða björgunarsveita og annara félagasamtaka um land allt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir