Sviðasulta og gjafapakkningar í vinnslu hjá SAH afurðum
Í samtali við Gunnar Tryggva Halldórsson hjá SAH afurðum í nýjasta tölublaði Bændablaðsins kemur fram að verkefnastaðan hjá fyrirtækinu sé þétt. Meðal verkefna þessa dagana er reyking á hangikjöt og pökkun kjötmetis í jólagjafapakkningar.
Þá hefur síðan í haust verið hugað að þorramatnum og má í því samhengi nefna að árlega eru framleidd um 30 tonn af sviðasultu, sem virðist í seinni tíð hafa haslað sér völl sem vinsæll skyndibiti.
SAH Afurðir reka tvö sláturhús, annars vegar stórgripasláturhús og hins vegar sauðfjársláturhús, reykhús og kjötvinnslu. „Um þessar mundir eru starfsmenn að leggja lokahönd á reykingu hangikjöts, en um 50–100 tonn af hangikjöti eru unnin hjá félaginu ár hvert, bæði í verktöku fyrir aðrar vinnslur og eins til sölu til viðskiptamanna þess. Við erum þessa dagana að setja saman jólagjafapakka sem seldir eru um land allt ár hvert. Pakkarnir eru einfaldir og á hagstæðu verði.,“ segir Gunnar í samtali við Bændablaðið.
Strax í haust hófst undirbúningur við þorramatinn en SAH afurðir framleiða trúlega einna mest af sviðasultu á landsvísu eða um 30 tonn. Hún er raunar búin til í hverri viku allt árið. „Sala á sviðasultu hefur rokið upp hin síðari ár, líklega er þetta eini skyndibitinn sem í boði er úr lambakjöti og þetta er hrein vara, bara kjöt og vatn, ekkert hveiti og engin sykur. Fólk hefur áttað sig á því, sviðasulta er t.d. töluvert keypt í sjoppum,“ segir Gunnar ennfremur í Bændablaðinu.