Systkinin á Dýrfinnustöðum eignast meirihluta í Gusti frá Hóli
Stjórn Hrossaræktarsamtaka Austurlands ákvað nú í haust að gefa systkinunum á Dýrfinnastöðum í Skagafirði hlut sinn í stóðhestinum Gusti frá Hóli. Hesturinn sem er orðinn 22. vetra er hættur að gagnast merum og stóð til að farga honum.
Á Facbooksíðu Gusts frá Hóli segir að hann sé einn farsælasti stóðhestur íslenska hrossastofnsins, fæddur 1988 en því miður er frjósemin hjá honum orðin mjög slök, ef nokkur. Er hesturinn sagður við góða heilsu og gæti átt nokkur góð ár eftir, þó svo hann nýtist ekki lengur til undaneldis. Þá segir að haustið 2009 hafi staðið til að fella hestinn.
Með þessum gjörningi HA hefur Gusti væntanlega verið tryggður áhyggjulaust ævikvöld þar sem hann verður nú í umsjá systkinanna á Dýrfinnustöðum en þar hefur hann verið í nokkur misseri. Á Eiðfaxa.is segir að Ingunn Ingólfsdóttir og systkyni hennar þau Björg og Trausti hafi annast hestinn en Ingunn hefur notað hann sem reiðhest. Þau Ingunn og Gustur hafa náð vel saman eins og menn sáu tildæmis á sýningu í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki í fyrravetur og á myndum sem fylgdu grein Bjarna Þorkelssonar um Gust í 5. tölublaði Eiðfaxa fyrr á þessu ári.
Eiðfaxi.is birtir einnig innihald gjafabréfsins þar sem hlutur Hrossaræktarsamtaka Austurlands í klárnum er afsalaður til systinanna með ósk að hann fái varanlegt heimili hjá þeim.