Tap fyrir Haukum í gærkvöldi

Tindastóll sótti Hauka í Hafnarfirði heim í gærkvöldi í Iceland Express deildinni í körfubolta en urðu að láta í minni pokann fyrir sterkum gestgjöfum. Slök frammistaða í fráköstunum gerði útslagið.

Á vef Tindastóls segir að fyrsti leikhlutinn hafi verið í jafnvægi og náðu okkar menn að halda Gerald Robinson vel niðri í upphafi, en hann fór mikinn í fyrsta leik Hauka gegn Hamri í Hveragerði. Kappinn sá náði þó að hirða 7 fráköst í leikhlutanum. Stigaskorið dreifiðist vel á Tindastólsstrákana, en alls komust 7 leikmenn á blað í leikhlutanum. Haukarnir höfðu eins stigs forystu 21-20 þegar 2. leikhluti hófst. Þegar í fyrsta leikhlutanum var ljóst að Hafnafjarðarpiltar ætluðu að rústa okkar mönnum í fráköstunum, en þeir höfðu tekið 15 fráköst gegn 5.

Í öðrum leikhluta skildu leiðir ef svo má segja og Haukarnir unnu leikhlutann 22-13. Fráköstin voru áfram að detta Haukamegin, en Gerald Robinson einn var búinn að taka tveimur fráköstum meira en allt Tindastólsliðið. Staðan þegar gengið var til leikhlés var kominn 10 stiga munur 43-33.

Ekki náðist að saxa á forskot Haukann í þriðja leikhluta, en hann endaði 18-18 og munurinn því ennþá 10 stig 61-51.

Þennan mun tókst Stólunum ekki að vinna niður í fjórða leikhlutanum og Haukamenn juku forskot sitt og unnu að lokum öruggan 19 stiga sigur 83-64.

Eins og áður segir varð Tindastólsliðið undir í fráköstunum og kann það aldrei góðri lukku að stýra. Frákastabaráttan fór 50-29 fyrir Hauka og þar af var Gerald Robinson með hvorki fleiri né færri en 22 stykki, þar af 11 í sókn. Magnaður leikmaður þar á ferðinni.

Josh Rivers var stigahæstur Tindastólsmanna með 18 stig, Kiki var með 16 stig og 8 fráköst, Helgi Rafn var með 10 stig, 9 fráköst og 7 stolna bolta, Helgi Freyr setti 6 stig, Hreinn 4, Halldór og Rikki 3 hvor og þeir Radoslav og Dimitar 2 hvor. Helgi Rafn var með hæstu framlagseinkun Tindastólsmanna eða 20 og Josh Rivers var með 18.

Hjá Haukunum skoraði Semaj Inge 24 stig, Gerald Robinson 18, , Örn Sigurðarson 15, Sævar Haraldsson 14 og aðrir minna. Sævar leiddi Haukana í framlagseinkun með 30 en auk þess að skora drjúgt, var hann með 11 stoðsendingar og hreint framúrskarandi skotnýtingu.

/Tindastóll.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir