Tap í Grindavík

Tindastóll sótti ekki gull í greipar Grindvíkinga suður með sjó í kvöld. Eftir jafnan fyrsta leikhluta sigu heimamenn fram úr í öðrum leikhluta og þeim þriðja. Í fjórða kom Tindastólsliðið aðeins til baka með betri varnarleik en það dugði ekki til og lokatölur 77-66.

Fyrsti leikhluti byrjaði ágætlega fyrir okkar með, þeir komust í 0-6 og síðar 8-13. Grindvíkingar hresstust þegar líða tók á leikhlutann og að honum loknum var staðan hnífjöfn 20-20.

Grindvíkingar léku betur í öðrum leikhluta en þegar staðan var 35-29 tók Borce leikhlé, enda verið langt frá því ánægður með varnarleik sinna manna. Það bar þó ekki tilætlaðan árangur að marki, því Grindvíkingar héldu sínum dampi og leiddu í hálfleik með 9 stiga mun 44-35, unnu annan leikhlutann 24-15.

Þegar hérna var komið við sögu var Hayward kominn með 12 og 5 fráköst, Helgi Rafn 8 stig og 4 fráköst, Kiki 7 stig og heilt frákast, Svabbi 4 og Sean með 4 sömuleiðis auk 5 frákasta og 4 stoðsendinga. Hvorki Rikki eða Helgi Freyr voru komnir á blað í hálfleik og munar sannarlega um minna.

Páll Axel var atkvæðamestur Grindvíkinga í hálfleik og leiddi í flestum tölfræðiþáttum, með 13 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Hayward opnaði seinni hálfleikinn með góðri körfu, en áfram var á brattann að sækja því Grindvíkingar voru mjög einbeittir. Þeir náðu 12 stiga forystu 53-41 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður og fátt benti til annars á þessum tímapunkti en að þeir myndu sigla leiknum í örugga höfn. Páll Axel negldi þristi og kom muninum í 15 stig 56-41, þegar Tindastóll tók leikhlé til að reyna að endurskipuleggja leik sinn. Áfram jókst þó munurinn, fór upp í 20 stig 65-45, þegar um ein og hálf mínúta voru eftir en Helgi Rafn hélt smá von í okkar mönnum og átti góðan lokasprett fyrir leikhlutaskiptin, staðan 65-51 þegar fjórði leikhlutinn hófst.

Hann byrjaði ekki vel því Páll Axel sem var funheitur í leiknum, opnaði leikhlutann með þriggja stiga körfu og var þarna kominn með 26 stig. Kiki tók þá góða rispu og munurinn komst niður í 11 stig 70-59 þegar 7.30 lifðu leiks og Grindvíkingar tóku leikhlé. En þrátt fyrir fína baráttu og betri varnarleik en fyrr í leiknum, náði Tindastóll ekki að ógna Grindvíkingum að ráði undir lokin og leiknum lauk með sigri heimamanna 77-66.

Hayward Fain var stigahæstur í kvöld með 20 stig auk þess að taka 9 fráköst og senda 3 stoðsendingar. Helgi Rafn barðist vel og kláraði leikinn með 18 stig og 6 fráköst. Kiki var með 15 stig, Sean 6 auk 8 frákasta og 5 stoðsendinga, Svavar setti 4 stig og Rikki 3, en hann var einnig með 3 fráköst og 4 stoðsendingar.

Páll Axel, sem oft hefur verið Tindastólsmönnum erfiður ljár í þúfu, hélt uppteknum hætti með stórleik, skoraði 26 stig, tók 11 fráköst og sendi 5 stoðsendingar. Var með 5/5 í skotnýtingu í tveggja stiga skotum og 5/9 í þriggja.

Næsti leikur Tindastóls verður hér heima gegn ÍR á fimmtudaginn eftir viku. Verður þar um gríðarlega mikilvægan leik að ræða, en með sigri gæti Tindastóll blandað sér í baráttuna um 5 sætið í deildinni.

Fleiri fréttir