Tap Stólastúlkna í Grindavík

Nicky var atkvæðamest í liði Tindastóls. MYND: ÓAB
Nicky var atkvæðamest í liði Tindastóls. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls lék á laugardaginn við Grindavíkurstúlkur í 1. deild kvenna í körfubolta og fór leikurinn fram í Grindavík. Gestirnir hófu leikinn ágætlega en lið heimastúlkna skreið fram úr skömmu fyrir hálfleik og lét forystuna ekki af hendi eftir það. Síðustu mínúturnar tóku þær síðan völdin og unnu öruggan sigur. Lokatölur 75-56 fyrir Suðurnesjastúlkurnar.

Jafnræði var með liðunum frama af fyrsta leikhluta en lið Tindastóls náði sex stiga forystu og var yfir, 16-22, að loknum fyrsta leikhluta. Marín Lind var ekki með að þessu sinni þannig að ábyrgðin í sóknarleik Stólastúlkna féll að mestu á Nicky og Evurnar tvær. Heimastúlkur náðu að snúa leiknum sér í vil í öðrum leikhluta og leiddu, 37-32, þegar flautað var til hálfleiks. 

Lið Grindavíkur var yfirleitt með 4-7 stiga forystu framan af þriðja leikhluta. Nicky setti niður þrist um miðjan leikhlutann og í kjölfarið setti Eva Wium niður tvö víti og staðan 45-43. Heimastúlkur voru sjö stigum yfir þegar lokafjórðungur leiksins hófst en fjögur stig frá Evu Wium minnkuðu muninn í þrjú stig, 55-52, hleyptu spennu í leikinn. Skömmu síðar fékk Nicky sína fimmtu villu og þá gengu Grindavíkurstúlkur á lagið.

Nicky var atkvæðamest í liði Tindastóls með 21 stig og 11 fráköst. Eva Wium getði 15 stig og Eva Rún 11 en þær tvær spiluðu nánast allar mínútur leiksins. Fimm stúlkur í liði Grindavíkur gerðu 12-15 stig í leiknum. Lið Tindastóls tók tveimur fráköstum meira en heimastúlkur í leiknum en skotnýting liðsins er slök. Næsti leikur er 17. október gegn liði ÍR fyrir sunnan og þar á eftir er heimaleikur en þó ekki fyrr en 31. október. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir