Tekist á um vernd og orkunýtingu landsvæða
Sveitarstjórn Svf. Skagafjarðar tók fyrir, á síðasta fundi sínum, umsagnarbeiðni um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Bendir sveitarstjórnin á það að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram fyrir Alþingi er aðeins lagt til að einn virkjunarkostur á vatnasviði á Norðurlandi vestra verði í orkunýtingarflokki og einn virkjunarkostur í vindorku.
Þar er um að ræða annars vegar veituleið Blönduvirkjunar og hins vegar Blöndulund, þar af aðeins um 30 MW í tiltölulega hagkvæmu vatnsafli. Í verndarflokk fara hins vegar fjórir virkjunarkostir á vatnasviði á Norðurlandi vestra og verður þá, nái tillaga ráðherra fram að ganga, með öllu óheimilt um ófyrirséða framtíð að stunda orkurannsóknir á þeim, samkvæmt fundargerð.
„Er grafalvarlegt að umhverfisráðherra horfi í þingsályktunartillögu sinni með öllu fram hjá þeirri staðreynd að orkuskortur er yfirvofandi víða um land og að virkjanir og dreifikerfi raforku anna ekki eftirspurn víða á landsbyggðinni. Að óbreyttu mun orkuskortur hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum, s.s. rafbílavæðingu. Þetta hefur raunar þegar átt sér stað á Norðurlandi vestra en áform um iðnaðaruppbyggingu á Hafursstöðum við Húnaflóa stranda á orkuöflun. Umræddur iðnaður myndi skapa á þriðja hundrað beinna starfa og svipaðan fjölda afleiddra starf og skipta gríðarlegu máli fyrir byggðaþróun á svæðinu öllu enda Hafursstaðir af mörgum orsökum einkar heppilegur staður, m.a. hvað varðar atvinnusókn og samgöngur af öllu Norðurlandi vestra. Þá hefur verið unnið að öðrum verkefnum á sviðum atvinnuuppbyggingar á svæðinu, t.a.m. hvað varðar framleiðslu koltrefja og basalttrefja í Skagafirði,“ segir í fundargerð sveitarstjórnar.
Í niðurstöðu fundarins segir að Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar fari fram á að Alþingi breyti framkominni þingsályktunartillögu á þann veg að Skagafjarðarvirkjanir fari í biðflokk rammaáætlunar og verði þar með rannsakaðar til fulls, sem aftur verði grundvöllur ákvarðanatöku síðar meir um hvort þessir kostir verði hagnýttir til orkuöflunar eða þeir látnir njóta verndar.
Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun þar sem kemur m.a. fram að sveitarstjórnarhópur VG og óháðra fagni því að virkjanakostir sem tengjast Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun séu endanlega slegnir af og vatnasvæði Héraðsvatna sett í verndarflokk í rammaáætlun. „Jökulsárnar í Skagafirði með sinni stórbrotnu náttúru er einstakar og þær ber að vernda, bæði fyrir komandi kynslóðir og á forsendum náttúrunnar sjálfrar. Með því að setja virkjanakosti í Jökulsánum í Skagafirði í verndarflokk er staðfest ótvírætt verndargildi svæðisins og þeir samfélagslegu hagsmunir til framtíðar sem felast í verndun þess.
Það er ánægjulegt að fulltrúar sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks hafi snúið við blaðinu frá ályktun frá sveitarstjórn sem þeir stóðu að 21. nóvember 2012, þar sem þess var krafist að virkjanir í jökulsánum yrðu færðar, þá úr biðflokki í nýtingarflokk. Þá var ekki talin þörf á frekari rannsóknum eða álitum faghópa,“ segir m.a. í bókuninni.
Tillagan var borin upp til afgreiðslu og samþykkt með sex atkvæðum,. Bjarni Jónsson (VG) greiðir atkvæði á móti og vísar í áður framkomna bókun sína og Sigríður Magnúsdóttir (B) og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir (K) óskuðu bókað að þær sitji hjá.
Sjá nánar HÉR