Telja ekki tímabært að ráðast í víðtækari sameiningarviðræður
Á síðasta fundi sameiningarnefndar Austur-Húnavatnssýslu var samþykkt að bjóða öðrum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra, þ.e. Akrahreppi, Húnaþingi vestra og Sveitarfélaginu Skagafirði, aðild að sameiningarviðræðunum og var þeim sent erindi þess efnis.
Erindið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 11. mars sl. Í fundargerð segir að þrátt fyrir að byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar sé jákvætt fyrir frekari sameiningum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra telji það þó „að eðlileg næstu skref af þess hálfu séu viðræður um sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði. Með því sé fyrst látið reyna á sameiningarvilja sveitarfélaga sem hafa áratugalanga reynslu af öflugu og mjög nánu samstarfi áður en ráðist sé í viðræður um á margan hátt flóknari sameiningar fleiri sveitarfélaga á mun stærra landsvæði. Sá tími kann þó að renna upp innan fárra ára ef stjórnvöld fylgja eftir fyrirheitum um styrkingu innviða sem eru á forræði ríkisins á svæðinu, s.s. í bættum samgöngum, fjarskiptum og öruggari orkuafhendingu og með því stækkun þjónustu- og vinnusóknarsvæða, auk styrkingar tekjustofna sveitarfélaga og tilfærslu verkefna sem eðlilegt er að sinnt sé í nærsamfélögum íbúanna,“ segir í fundargerð.
Erindið var einnig lagt fram á fundi hreppsnefndar Akrahrepps þann 4. mars sl. og var afgreislu þess frestað til næsta fundar.
Húnaþing vestra fjallaði um erindið á síðasta fundi sínum sem haldinn var mánudaginn 16. mars sl. Í fundargerð er sagt að góð reynsla hafi verið af farsælli sameiningu sjö hreppa í Vestur-Húnavatnssýslu árið 1998 og sameiningu Húnaþings vestra og Bæjarhrepps árið 2012. „Byggðarráð Húnaþings vestra telur eðlilegt að áður en víðtækar og á margan hátt flóknar sameiningar sveitarfélaga í öllum landshlutanum komi til umræðu verði reynt á sameiningarvilja þeirra sveitarfélaga í landshlutanum sem eigi að baki áratugalangt og náið samstarf innan afmarkaðra svæða hans,“ segir í fundargerð byggðarráðs.
Því má ætla að ekki verði breytingar á fjölda þeirra sveitarfélaga sem að sameiningarviðræðum standa að svo komnu máli.