Telur að um ólögmæta uppsögn sé að ræða
Á síðasta fundi SSNV þann 1. október síðast liðinn var tekið fyrir bréf frá lögfræðingi f.h. Katrínar Maríu Andrésdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra SSNV, þar sem fram kemur að hún uni ekki þeirri túlkun stjórnar að hún hefji aftur störf sem atvinnuráðgjafi og hún líti svo á að um ólögmæta uppsögn sé að ræða.
Á fundinum mótmælti stjórn SSNV þessari túlkun, en stjórnin lítur svo á að um eðlilega ráðstöfun hafi verið að ræða og hafi stjórnin m.a. leitað ráðgjafar í úrlausn málsins hjá lögfræðingum sambands íslenskra sveitarfélaga. Katrín María gegndi starfi framkvæmdastjóra í námsleyfi Jóns Óskars Pétursson, sem sagði starfi sínu lausu fyrr í sumar og var starfið þá auglýst laust til umsóknar.
„Stjórnin harmar þessa niðurstöðu og lítur svo á að Katrín María segi sig þar með frá starfi atvinnuráðgjafa á vegum SSNV enda lítur hún svo á að stofnast hafi til fastráðningar hennar sem framkvæmdastjóra,“ segir í fundargerðinni.
„Þrátt fyrir að fyrir liggi að starfsmanni beri að skila vinnuframlagi við uppsögn í starfi óskar stjórn SSNV ekki eftir frekari vinnuframlagi Katrínar Maríu en að hún skili lyklum og skili skilagrein um stöðu einstakra verkefna. Gert verður upp við Katrínu Maríu samkvæmt kjarasamningsbundnum greiðslum,“ segir jafnframt í fundargerðinni, sem birt er á heimasíðu SSNV.