Þarf alltaf að vera kynlíf?

Eysteinn segir farir sínar ekki sléttar.
Eysteinn segir farir sínar ekki sléttar.

Eysteinn Lýðvaldsson hafði samband við Dreifarann á dögunum en hann var þá nýkominn heim úr söluferð um landið. Hann selur bændum og búaliði verkfæri og segist oft eiga góðar samræður við fólk. Þar á meðal um boð og bönn.

-Já, ég vil láta banna kynlífið. Held það sé réttast. Það hefur ekkert gott hlotist af því í gegnum tíðina, ekkert nema framhjáhöld og hjónaskilnaðir. Svo ekki sé nú talað um hina og þessa sjúkdóma og ýmsa andlega kvilla. Þetta kynlíf, skal ég segja þér, gerir ekki nokkrum manni neitt gott.

Þér getur nú varla verið alvara Eysteinn? -Jú, svo sannarlega. Heimurinn væri betri staður ef fólk væri ekki endalaust með kynlíf á heilanum, það er ég viss um. Kynlífið dregur svoleiðis úr hugmyndaflugi fólks að maðurinn væri að mínu viti kominn miklu lengra í þróunarferlinu ef kynlífið væri ekki alltaf að trufla hann.

Já, en... –Það er ekkert já en góði minn. Þarf alltaf að vera kynlíf? Nei takk, segi ég. Það á að banna þennan fjanda með öllu. Fólk er ekki fyrr komið heim úr vinnu en það skellir sér í kynlífið, þennan fjanda. Já og sumir eru jafnvel að fá sér í vinnunni. Og nú vill fólk geta nálgast kynlíf í matvörubúðum. Nei, nú er alltof langt gengið. Ég segi nei, nei, nei.

Er fólk að stunda kynlíf í matvörubúðum? -Kynlíf? Sagði ég kynlíf? Ég er að tala um alkóhól! Ekki snúa svona útúr öllu sem ég segi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir