Þegar Lady Astor ánetjaðist kókinu

Þingmaðurinn, Óli Björn Kárason, ritar skemmtileg minningarbrot um leiklist, sæluviku og frelsi á bakvið tjöldin í Bifröst í nýjasta blaði Feykis sem helgað er Sæluviku Skagfirðinga sem hefst næsta sunnudag. Á Sauðárkróki sleit Óli Björn barnskónum ásamt æskuvini sínum dr. Sveini Ólafssyni en í uppsetningu Leikfélags Sauðárkróks á Tehúsi ágústmánans fengu þeir mátar ábyrgðarhlutverk meðfram leikstörfum sínum, þ.e. að passa upp á einn sem var enginn venjulegur leikari.
Grípum niður í frásögnina: „Hún var kölluð Lady Astor en aldrei fékk ég að vita hennar raunverulega nafn. Kannski var henni aldrei gefið nafn, - ég velti því aldrei fyrir mér. Í aðdraganda sæluviku 1973 varð Lady Astor háð kóki. Ég kom henni á bragðið með dyggri aðstoð æskuvinar míns, dr. Sveins Ólafssonar.
Lady Astor tók þátt í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks á Tehúsi ágústmánans eftir John Patrick. Sögusviðið er eyjan Okinawa sem Bandaríkjamenn hertóku undir lok seinni heimstyrjaldar. Með gamansömum og góðlegum hætti er varpað ljósi á þau vandamál sem koma upp í samskiptum hernámsliðsins og innfæddra. Ólíkir menningarheimar mætast. Aldagamlir siðir Japana og viðhorf þeirra til lífsins eiga lítið skylt við hugmyndir Bandaríkjanna sem vilja innleiða hugsunarhátt kapítalisma og lýðræðis.
Fisby höfuðsmaður, sem Hilmir Jóhannesson lék meistaralega, er sendur til þorpsins Tobiki. Þar á hann að hrinda í framkvæmd „áætlun B“. Honum til aðstoðar er Sakini, þorpsbúi sem er ekki aðeins túlkur heldur ekki síður kennari og leiðbeinandi höfuðsmannsins. Sakini er gæddur næmum skilningi á lífinu og litbrigðum þess. Hann er mannlegur, gamansamur og nær sínu fram enda snjall og oft lævís. Sum hlutverk eru sniðin fyrir ákveðinn leikara eða kannski er leikari sniðinn fyrir hlutverkið. Hafsteinn Hannesson naut sín í hlutverki Sakini.
Fisby er gerður ábyrgur fyrir að ameríkansera þorpsbúa, koma á kapítalísku kerfi, láta kjósa bæjarstjóra, landbúnaðarstjóra og lögreglustjóra, í opnum lýðræðislegum kosningum. Hann á að tryggja efnahag þorpsbúa með leiðum kapítalista – „markaðssetja“ vörur sem þorpsbúar geta framleitt. Flest gengur á afturfótunum en hægt og bítandi gerir Fisby sér grein fyrir fegurð mannlífsins og mikilvægi þess að varðveita japanska menningu. Hann samþykkir að reisa tehús fyrir þorpsbúa sem rammar inn menningarlíf og sögu japönsku þjóðarinnar. Og lausn á efnahag þorpsins finnst – sætt kartöflu-brandí og Brugghús Tobiki tekur til starfa.
Tryllt af örvæntingu
Í viku eða tíu daga fyrir frumsýningu undirbjó Lady Astor sig undir lítið en mikilvægt hlutverk. Hún hafðist við í geymslunni inn af búningsherberginu. Við Sveinn vorum gæslumenn. Samkvæmt fyrirmælum leikstjórans og föður míns, Kára Jónassonar, skyldum við vera ábyrgir fyrir dömunni, hafa á henni gætur og sinna þörfum hennar í hvívetna. En fyrst og síðast vorum við ábyrgir fyrir því að hún lærði að meta hið „dökka kartöflu-brandí“. Það var Lady Astor sem átti að gefa endanlegt samþykkti fyrir brandíinu – gefa því nauðsynlegt heilbrigðisvottorð.“
Leyndarmálið um Lady Astor verður ekki upplýst hér en bendum forvitnum á að verða sér úti um eintak af nýjum Feyki.