Þétt dagskrá við toppaðstæður á Landsmóti UMFÍ 50+

Landsmót UMFÍ 50+ hefst á Blönduósi nk. föstudag og er þétt dagskrá sem fer fram víða um bæinn alla helgina. „Margir hafa haft orð á því, sem koma inn í svona lítið samfélag, hvað íþróttaaðstaða okkar er alveg frábær,“ sagði Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri á Blönduósi í samtali við Húna.is.

„Við eigum stórt og flott íþróttahús, fína og góða sundlaug sem margir segja að sé sú besta og fallegasta á  landinu, hvorki meira né minna. Við höfum ennfremur yfir að ráða glæsilegum íþróttavelli með sætum og öllu tilheyrandi. Við teljum okkur vel í sveit sett í þessum efnum hvað alla aðstöðu snertir. Okkur er ekkert að vanbúnaði að halda svona mót og við hlökkum mikið til,“ sagði Arnar ennfremur.

„Nú er bara að vona að veðurguðirnir verði með okkur en á þessu svæði ríkir oft veðursæld. Það er ótrúlegt hvað veðrið er oft gott hér en Blönduós er einn þurrasti stað á landinu þannig að vonandi á veðrið eftir að leika við okkur.“

Landsmót UMFÍ 50+ sannað ágæti sitt

Þá er rætt við Aðalbjörgu Valdimarsdóttur, formann Ungmennasambands Austur-Húnvetninga, framkvæmdaaðila landsmótsins og sagðist hún vera full tilhlökkunar.

„Undirbúningur fyrir mótið hefur gengið með ágætum. Við í nefndinni höfum hist reglulega í þó nokkurn tíma, metið stöðuna og farið í hluti sem þurft hefur að bæta og laga. Þetta hefur verið skemmtilegur tími. Við erum með gott fólk innan okkar raða sem er tilbúið að vinna og láta gott af sér leiða. Það getur skipt sköpum að hafa gott fólk með sér,“ sagði Aðalbjörg í samtali við Húna.is.

„Það verður gaman að taka á móti keppendum og gestum. Við erum miðsvæðis, stutt til Reykjavíkur og stutt frá Akureyri. Þetta verður fín reynsla fyrir ungmennasambandið og fólk sem mun smám saman taka við af okkur.

Landsmót UMFÍ 50+ hafa svo sannarleg sannað ágæti sitt en fólk frá okkur hefur verið verið duglegt að sækja mótin allt frá upphafi. Þeir sem hafa byrjað að fara hafa farið aftur og aftur og það segir sína sögu um ánægjuna. Við verðum að hafa í huga að mótin eru ekki eingöngu keppni heldur ekki síður vettvangur til að hittast og kynnast nýju fólki alls staðar að af landinu,“ sagði Aðalbjörg.

Dagskrá helgarinnar

Að neðan er dagskrá Landsmóts UMFÍ 50+. Fólk á öllum aldri er hvatt til að skoða dagskrána og jafnframt til að mæta, fylgjast með og njóta þeirrar afþreyingar sem í boði verður.

FÖSTUDAGUR 26. JÚNÍ

  • Mótsstjórn/upplýsingar 10:00-17:00 Blönduskóli
  • Boccia 12:00-17:00 Íþróttahúsið Blönduósi
  • Skotfimi 15:00-19:00 Skotsvæði Markviss
  • Mótssetning 20:00 Félagsheimilið Blönduósi
  • Dansleikur 21:30-23:30 Félagsheimilið Blönduósi

LAUGARDAGUR 27. JÚNÍ

  • Morgunleikfimi 07:45-08:30 Íþróttahúsið Blönduósi
  • Mótsstjórn/upplýsingar 08:00-17:00 Blönduskóli
  • Dalahlaup 32.2 km 08:00 Frá Húnaveri
  • Dalahlaup 10.0 km. 08:00 Frá Húnaveri
  • Golf 09:00-17:00 Golfvöllurinn á Blönduósi
  • Boccia / úrslit 09:00-11:00 Íþróttahúsið á Blönduósi
  • Söguganga 11:00-11:45 Frá Hafíssetrinu
  • Heilsufarsmælingar 11:00-13:00 Sundlaugin (anddyri)
  • Sund 12:00-15:00 Sundlaugin á Blönduósi
  • Bridds 11:00-18:30 Félagsheimilið Blönduósi
  • Hestaíþróttir 14:00 Arnargerði við Blönduós
  • Skák 13:00-18:00 Snorrabúð Hótel Blönduós
  • Pönnukökubakstur 14:00 Kvennaskólinn
  • Midnight Sun Burnout, sýning 15:00 - 18:00 Textílsetur Íslands í Kvennaskólanum
  • Kynning á Lomber 09:30-11:30 Hótel Blönduós
  • Frjálsíþróttir 15:00-19:00 Blönduósvöllur
  • Ringó 15:00 Íþróttahúsið Blönduósi
  • Söngbúðir þar sem allir syngja saman 20:30-21:30 Félagsheimilið Blönduósi

SUNNUDAGUR 28. JÚNÍ

  • Sundleikfimi 07:45-08:30 Sundlaugin
  • Mótsstjórn/upplýsingar 08:00-14:00 Blönduskóli
  • Pútt einstaklings- og sveitakeppni 09:30-12:00 Við Blönduóskirkju
  • Lomber 09:30-13:30 Hótel Blönduós
  • Dráttarvélaakstur 10:30-12:00 Blönduós
  • Stígvélakast 12:00-12:30 Blönduósvöllur
  • Mótsslit 14:00 Blönduósvöllur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir