Þjóðararfur í þjóðareign

Vilhjálmur Bjarnason og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Aðsend mynd.
Vilhjálmur Bjarnason og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Aðsend mynd.

Vilhjálmur Bjarnason færði á dögunum Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra gjafabréf útgáfuréttar að sex binda útgáfu þjóðsagna Jóns Árnasonar sem fræðimennirnir Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson tóku saman og gáfu út á árunum 1954-1961. Þar er um að ræða aðra útgáfu sagnanna sem Jón Árnason safnaði og margir Íslendingar kannast við og er sú útgáfa þeirra nú komin í þjóðareign.

,,Þess gjöf afkomendanna er kærkomin og mikilsvirt. Þjóðsögur Jóns Árnasonar lifa með okkur og eru endalaus uppspretta fróðleiks og ánægju,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í ár eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Árnasonar, þjóðsagnasafnara og landsbókavarðar og ákváðu afkomendur þeirra Árna og Bjarna af því tilefni að færa íslensku þjóðinni höfunda- og útgáfuréttinn að gjöf. Frú Vigdís Finnbogadóttir veitti sjálfu gjafabréfinu viðtöku fyrir hönd þjóðarinnar en mennta- og menningarmálaráðherra hefur nú tekið við því til varðveislu í ráðuneytinu. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson eiga eftir sem áður sæmdarrétt að útgáfu sinni.

Ævi og starfi Jóns Árnasonar hafa verið gerð góð skil á þessu afmælisári en síðar í mánuðinum efnir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til alþjóðlegrar ráðstefnu um þjóðsögur af því tilefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir