Þórarinn og Narri á Heimsmeistaramót hestamanna

Meistaraknapinn Þórarinn Eymundsson og Narri frá Vestri-Leirárgörðum eru komnir í landslið hestamanna sem keppir á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fer í Eindhoven 7. - 14. ágúst. Þetta varð ljóst eftir að þeir félagar enduðu í öðru sæti í fimmgangi á Íslandsmóti fullorðinna á Gaddstaðaflötum um helgina.
Þeir Þórarinn og Narri fengu einkunnina 7,88 en Þórarinn Ragnarsson og Spuni frá Vesturkoti sigruðu með 8,21. Þar sem Spuni er ekki að fara úr landi er það mat landsliðseinvalds að þeir félagar Þórarinn og Narri taki landsliðssætið.
„Narri er með afburðar jafnvægi bæði andlega og á gangtegundum. Auk þess að hafa mikla útgeislun og myndarskap,“ segir Þórarinn sem er ánægður með árangurinn. „Ég er mjög sáttur en samt leiður í aðra röndina þar sem hesturinn er að verða svo góður. En þeir þurfa líka að vera góðir til að vinna gull fyrir Íslands hönd,“ segir hann og óskar Feykir þeim félögum til hamingju og góðs gengis á HM.
Tengd frétt: Finnbogi kominn í landslið hestamanna