Þórður Guðni og Björn Ingi efstir í jeppaflokki

MBL.is segir frá því að Alþjóðlega Skeljungs Rally Reykjavík lauk fyrir skömmu og voru það þeir Sigurður Bragi Guðmundsson og Ísak Guðjónsson sem fóru með sigur af hólmi.Þeir voru tæpum 2 mínútum á undan þeim Hilmari B. Þráinssyni og Davíð Jóni Ríkharðssyni að aka allar 25 sérleiðir rallsins. Í þriðja sæti urðu systkinin Marian Sigurðsson og Ásta Sigurðardóttir tæpum 6 mínútum þar á eftir. Allar þessar áhafnir aka Mitsubishi Lancer Evo bifreiðum.

Baráttan var hvað hörðust í flokki fjórhjóladrifsbifreiða án forþjöppu en þeir Baldur Haraldsson og Elvar Smári Jónsson voru í sekúndu slag við bræðurna Þorstein Pál og Ragnar Sverrissyni.

Á næst síðustu sérleið sem ekin var um Djúpavatn sprengdu þeir bræður dekk og töpuðu við það miklum tíma og misstu Baldur og Elvar fram úr sér. Baldur og Elvar sigruðu því flokkinn með 45 sekúndu forskoti. Feðgarnir Baldur Arnar Hlöðversson og Hlöðver Baldursson urðu í þriðja sæti en Baldur er að keppa sem ökumaður í fyrsta skipti, segir í fréttatilkynningu.

Í jeppaflokki voru þeir Þórður Guðni Ingvason og Björn Ingi Björnsson fljótastir. Þeir voru í baráttu við bresku hermennina Alan Paramore og Chris Vosper sem sóttu hart að þeim í dag en urðu að gera sér annað sætið að góðu, einni og hálfri mínútu á eftir.

Samhliða sérleiðarallinu var góðaksturskeppni sem var hluti af FIA Alternative Energies Cup. Í þeirri keppni urðu heimsmeistararnir, Raymond Durand og Bernard Vialar frá Frakklandi hlutskarpastir. Þeir aka Toyota Prius. Í öðru sæti varð Kristján Einar Kristjánsson ásamt aðstoðarökumanni sínum, Hauki Viðari Jónssyni á Volkswagen Passat sem drifinn er af metani. Þriðja sæti kom í hlut Frakkanna Fiederic Thizy og Yves Pavoux á Toyota Prius. Þetta er í annað sinn sem umferð í þessari keppni er ekin á Íslandi en í henni verða bílarnir að ganga fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti.

Rally Reykjavík var haldið í 32. skipti, 31 bíll tók þátt í keppninni sem tók þrjá daga og skiluðu 24 þeirra sér í mark. Keppnin er ein mesta þolraun á bifreiðar og áhafnir sem að íslenskar akstursíþróttir hafa upp á bjóða. Rallbílarnir þurftu að aka yfir 1000 km leið en góðakstursbílarnir um 700.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir