Þrír lykilstjórnendur ráðnir til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Ráðnir hafa verið þrír lykilstjórnendur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Störf framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra fjármála- og stoðþjónustu voru auglýst laus til umsóknar í október sl., alls sóttu 32 um starf fjármála- og stoðþjónustu eða mannauðsstjóra, fimm um starf framkvæmdastjóra hjúkrunar og einn sótti um starf framkvæmdastjóra lækninga.
Í fréttatilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands segir að Guðný Friðriksdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnuninni. Guðný lauk B.Sc. námi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 1996 og MBA námi frá Háskóla Íslands árið 2008. Guðný starfaði á námsárum á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík. Á undanförnum árum hefur Guðný unnið bæði á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á Landsspítalanum. Nú síðast sem verkefnastjóri og formaður hjúkrunarráðs á Landspítala.
Örn Ragnarsson hefur verið ráðin framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Örn lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og sérfræðingsnámi í heimilislækningum í Svíþjóð. Örn hefur starfað við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki frá árinu 1993 og verið bæði yfirlæknir og framkvæmdastjóri lækninga á stofnunni síðast liðin ár.
Guðmundur Magnússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála- og stoðþjónustu. Guðmundur hefur meistaragráðu í rekstrar- og stjórnunarverkfræði frá Álaborgarháskóla og stundar nú meistaranám í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri. Guðmundur hefur starfað sem ráðgjafi, framkvæmdastjóri Lundar rekstrarfélags og kennt gæðastjórnun, rekstrarstjórnun og nýsköpun við Háskólann á Akureyri.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands tók til starfa þann 1. október 2014 við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Heilsugæslunnar á Akureyri, Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík, Heilbrigðisstofnunarinnar í Fjallabyggðar, Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi.