Þrjár alíslenskar til liðs við Stólastúlkur

Aldís María, Rósa Dís og Hallgerður. MYND: JÓNSI
Aldís María, Rósa Dís og Hallgerður. MYND: JÓNSI

Feykir sagði í gær frá því að Stólastúlkur hefðu unnið glæsilegan sigur á liði Stjörnunnar í fyrsta æfingaleik sumarsins. Fjórar stúlkur þreyttu þar frumraun sína með liði Tindastóls og þar á meðal var markvörðurinn Amber Michel. Hinar þrjár eru alíslenskar en það eru þær Aldís María Jóhannesdóttir, Rósa Dís Stefánsdóttir og loks Hallgerður Kristjánsdóttir. Feykir bað Jón Stefán Jónsson,  annan þjálfara Tindastóls, að segja lesendum aðeins frá þeim þremur.

Fyrst er þó rétt að nefna að ástæðan fyrir því að ákveðið var að styrkja lið Tindastóls er að pínu hefur flíast úr liðinu frá í fyrra en þær Vigdís Edda, Guðrún Jenný og Kolbrún verða ekki með liðinu  í sumar. Vigdís gengin til liðs við Breiðablik, Guðrún Jenný ólétt og Kolbrún búin að leggja takkaskóna á hilluna. Þá hafði Laufey Harpa einnig haft vistaskipti en hefur ákveðið að snúa til baka í lið Stólastúlkna. En gefum Jónsa orðið:

„Aldís María Jóhannsdóttir er sóknarmaður uppalin í Þór. Hún er fædd árið 2001 og hefur alltaf þótt mikið efni en verið óheppin með meiðsli. Hún á nú þegar að baki tvö tímabil með Hömrunum, varaliði Þórs/KA.

Rósa Dís er fædd árið 2000 og er ættuð frá Hauganesi, dóttir Stefáns Garðars Níelssonar sem lék með Reyni og Dalvík hér á árum áður og hefur lengi verið stjórnarmaður hjá Dalvík/Reyni. Hún skipti ung að árum til KA og síðan í Hamrana þar sem hún hefur leikið undanfarin tvö tímabil. Þess má geta að bæði Aldís og Rósa hafa tvisvar orðiðÍslandsmeistarar með 2. flokk Þórs/KA á undanförnum árum.

Hallgerður Kristjánsdóttir er Reykjavíkurmær fædd árið 2001. Hún er varnar- og miðjumaður og kemur að láni frá Val. Hún á þegar að baki leiki með meistaraflokki Vals í Lengjubikar og var viðloðandi yngri landslið. Samkeppnin í Val er erfið og fannst þessari kláru stelpu tilvalið að efla sig utan og innan vallar með því að búa úti á landi í sumar,“ segir Jónsi og bætir við að bæði Rósa og Hallgerður hyggist halda til USA í nám á haustmánuðum svo lengi sem það verður hægt í ljósi covid ástandsins í USA.

Það er ljóst að það verður spennandi að fylgjast með kvennaliði Tindastóls í 1. deildinni í sumar, enda metnaðurinn mikill og stefnan sett hátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir