Þuríður á fjórum fótum
Framfarirnar halda áfram hjá Þuríði Hörpu en í síðustu viku náði hún þeim árangri að geta skriðið á fjórum fótum í endurhæfingu. Þuríður hefur frá árinu 2007 verið lömuð frá brjóstum og niður en hún hefur nú þegar farið þrjár ferðir til Indlands þar sem hún gengst undir stofnfrumumeðferð. Þuríður fer sína fjórðu ferð til Indlands í febrúar á næsta ári.
Ætlaði sko að vera löngu búin að setja inn nýjustu framfarir því þær voru alveg stórkostlegar, þó ég segi sjálf frá. Síðasta miðvikudag fór ég eins og venjulega í endurhæfingu, ég var vel upplögð bæði andlega og líkamlega, þó svo að vöðvabólgan undir öðru herðarblaðinu væri ekki horfin þá var þetta allt miklu betra. Sjúkraþjálfa byrjaði á að reyna að losa um vöðvabólguna með víbrator, að því búnu fór ég í spelkurnar og staulaðist inn í endurhæfingasal, sem gekk í sjálfu sér ágætlega, ef spelkurnar eru rétt staðsettar þannig að hnén bogna ekkert þá gengur mér ágætlega að staulast áfram. Ég fór aðeins í göngubrautina og stóð þar við stafinn og það gekk líka vel. Þá var komið að því að fara á bekkinn og átti ég að byrja á að standa á fjórum fótum. Ég kom mér fyrir og upp á fjórar, sjúkraþjálfa tafðist eitthvað við að leiðbeina öðrum, og meðan ég beið á fjórum fótum fór ég að spá í hvort mér tækist ekki að skreiðast einsömul áfram og að sjálfsögðu prófaði ég. Viti menn, hægt en örugglega færði ég hægri fótinn áfram og svo vinstri fót og þannig fór ég áfram skref fyrir skref, ein og óstudd. Mér tókst að fara bæði aftur á bak og áfram, að vísu gat önnur löppin þvælst fyrir hinni þegar ég skreið aftur á bak en þetta gekk alveg ótrúlega vel og ég fór þrjár ferðir fram og til baka á bekknum. Sjúkraþjálfa var jafn himinlifandi og ég, þetta var alveg splunkuný færni ef svo má að orði komast. Áður hafði ég getað skriðið fram og til baka ef haldið var undir ökklana á mér – því það að draga fótinn eftir fletinum var of mikil mótstaða og gerði það að verkum að ég komst ekkert áfram. Nú brá öðru við, ég hlakkaði því til að mæta í æfingarnar í gær. Ég var að vísu ekki nógu vel upplögð andlega og kannski svoldið þreytt eftir vikuna, ég hafði líka bætt aðeins við mig og farið í prufutíma í slendertone á fimmtudeginum. Það er skemmst frá að segja að ég var frekar slöpp í æfingunum, og þegar ég skreiddist af stað á fjórum fótum var það klárlega mun erfiðara en á miðvikudeginum, en það tókst nú samt þannig að þetta er örugglega breyting sem komin er til að vera. Hver hefði trúað þessu fyrir rúmu einu ári, að ég gæti farið upp á fjórar fætur og skriðið af stað ;O). Smá saman styrkist ég og fæ betra jafnvægi á mjaðma- og rasssvæðinu, þrátt fyrir að lítið sé eftir að vöðvunum á þessum svæðum sem og annarstaðar á lamaða partinum. Þessar nýjustu framfarir sýna mér að ég er á réttri leið – svo sannarlega – og nú hef ég virkilega upplifað að vera að taka stórum framförum löngu eftir að vera komin heim frá Delhí. Vöðvabólgan er á hröðu undanhaldi, en ég var víst komin með bólguhnúða um allt bak og með herðarnar alveg kíttar, þannig að það var víst ekkert skrítið þótt eitthvað léti undan að lokum. Ég er samt alveg viss um að það að lækka stólinn hefur orðið til þess að ég er að nota meira en áður vöðva í bakinu. Auk þess sem ég er að reyna að styrkja bakið með að sitja bein og fett ofan setbeinunum sem sagt ekki bogin eða hokin. Þetta reynir mikið á bak og kviðvöðva og nú í fyrsta skipti í þrjú ár er ég virkilega þreytt og aum í bakinu eftir daginn. Þetta er semsagt allt á réttri leið hjá mér.