Tilraunamatseðill í Gránu Bistro næstu daga

Tobba yfirkokkur í Gránu (Þorbjörg Jóna Guðmundsdóttir) ásamt Kristni Gísla Jónssyni landsliðskokki.
Tobba yfirkokkur í Gránu (Þorbjörg Jóna Guðmundsdóttir) ásamt Kristni Gísla Jónssyni landsliðskokki.

„Já, okkur er frekar þröngur stakkur skorinn þegar ferðaþjónusta í heiminum liggur að mestu niðri og samkomubann er í gildi. Við erum með lokað til 4.maí en okkur langar að sýna lit og bjóða upp á eitthvað nýtt á matseðli fyrir íbúa hér,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson í Gránu á Sauðárkróki en Grána Bistro auglýsir núna, fimmtudag til sunnudags, tímabundna opnun í eldhúsi frá kl. 17-21 þar sem boðið er uppá tilraunamatseðil. 

Það er sumsé ekki opið í Gránu í veitingasalnum og ekki hefðbundinn matseðill. „Tekið verður við pöntunum í síma 588 1238 á þessum tíma og fólk sækir svo til okkar veitingar sem það pantar,“ segir Heiðar. „Við fengum landsliðskokkinn Kristin Gísla Jónsson til liðs við okkur í Gránu og saman höfum við búið til nýjan tilraunamatseðil sem verður prófaður þessi fjögur kvöld. Svo sjáum við til þegar við opnum aftur hvort eitthvað af þessum nýju réttum rata inn á okkar hefðbundna matseðil – en það er ekki ólíklegt.“ 

Hægt er að kíkja á upplýsingar um nýju réttina inni á Facebook-síðu Gránu Bistro en kokkarnir hafa galdrað fram spennandi rétti þar sem bragðskreyttir eru kjúklingavængir, vefjur, kartöflusmælki og grilluð flatbrauð með tilheyrandi viðbótum.

Hverju ert þú sjálfur spenntastur fyrir?„ Persónulega er ég spenntastur fyrir grilluðu flatbrauði með lamba kebab spjóti, jógúrt tahini, kórínder og toum, sennilega vegna þess að ég er alinn upp af sauðfjárbændum og veit að bæði flatbrauð og lambakjöt eru matur sem alltaf skapar gleði og hamingju. En ég hlakka mikið til að smakka þetta allt saman og hef þegar boðið fram krafta mína við smökkun,“ segir Heiðar með vatnið í munninum.

Hvernig leggst sumarið í framkvæmdastjóra Gránu Bistro og 1238? „Við sjáum mikil tækifæri í því að nú munu Íslendingar væntanlega ferðast mikið innanlands. Við erum með spennandi afþreyingu og frábæran veitingastað sem við munum efla enn meira á komandi vikum. Þá ætlum við að halda áfram með viðburði í smærri kantinum, en það er jú uppskrift sumarsins, að halda mannfögnuðum smáum í sniðum. Við erum því bara bjartsýn á komandi sumar þrátt fyrir að þetta sé ansi snúið ástand fyrir fyrirtæki sem var byggt til að taka á móti ferðafólki sem að mestum hluta átti að koma erlendis frá. Við vorum komin með mikið af bókunum og búin að fá frábærar viðtökur. Við trúum á þetta verkefni okkar og trúum því að við náum vopnum okkar á komandi árum þegar alheimurinn réttir úr kútnum.“

Sem fyrr segir er stefnt að opnun að nýju þann 4. maí nk. en næstu daga er þó hægt að taka tilraunamatseðilinn til kostanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir