Tindastóll áfram í bikarnum eftir magnaðan útisigur á Keflvíkingum

Tindastóll sótti Keflvíkinga heim í Powerade bikarnum í kvöld. Fyrirfram voru möguleikar Tindastóls á sigri ekki taldir miklir, þar sem Keflvíkingar hafa verið að leika sérlega vel undanfarið og Tindastóll með menn í meiðslum og laskað lið sem fór á staðinn.

Tindastóll lék vel í fyrsta leikhluta og að honum loknum var staðan 24-33 fyrir Tindastól. Keflvíkingar hressust heldur betur í öðrum leikhluta, unnu upp forskot Tindastóls og gott betur, leiddu með fimm stigum í hálfleik 52-47.

Tindastóll spilaði þriðja leikhlutann ótrúlega og unnu hann afar sannfærandi 13-28 og staðan allt í einu orðin 65-75 fyrir Tindastól. Í fjórða leikhluta var bara gefið í og líklega ár og dagur síðan Keflavík fer ekki yfir 80 stigin á heimavelli. Lokastaðan alveg hreint út sagt mögnuð 78-95!! Keflvíkingum haldið í 26 stigum á heimavelli.

Miklu hefur munað að Trifunovic sem farið hefur hamförum í undanförnum leikjum Keflvíkinga var hreinlega tekinn út úr sínum leik. En varnarleikur okkar manna hefur verið gríðarlega góður í leiknum, það er alveg ljóst.

Rikki sat heima meiddur á ökkla og Helgarnir Freyr og Rafn voru á "einari" ef svo má segja, eiga báðir við meiðsli að stríða. Svabbi og Halli komu inn í byrjunarliðið að þessu sinni og allir níu leikmennirnir á skýrslunni spiluðu góðar mínútur og m.a. kom Tobbi inn og leysti Sean af í miðjum leik og gerði það vel.

Hayward Fain var stigahæstur í kvöld með 29 stig auk þess að taka 14 fráköst og senda þrjár stoðsendingar. Sean átti magnaðan leik einnig, setti 27 stig, Kiki var með 21 og 6 fráköst, Svavar var með 7 stig, Helgi Freyr með 6 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar, Halli og Hreinsi með 2 stig hvor og Helgi Rafn með 1 stig, 7 fráköst og þrjár stoðsendingar.

Tindastóll vann slaginn á "borðunum" tóku 37 fráköst á móti 27 þeirra Keflvíkinga og eftirtektarvert er að liðið hitti úr 53% þriggja stiga skota sinna sem er mögnuð liðshittni en aðeins úr 54% af vítum sínum.

Næsti leikur Tindastóls er aftur gegn Keflavík á fimmtudaginn kemur, en þá í deildinni. Keflvíkingar ætla sér væntanlega ekki að tapa aftur fyrir Tindastóli, en að sama skapi verður það verkefni okkar manna að hrista Keflavíkurgrýluna endanlega af sér.

Fleiri fréttir